Á annað hundrað manns sóttu guðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju á uppstigningardag, 9. maí kl. 11. Ingibjörg Hannesdóttir, fyrrverandi leikskólakennari, flutti hugleiðingu.
Sönghópur eldri bæjarbúa er heitir Gömlu meistararnir sungu í guðsþjónustunni. Rúmlega sjötíu eldri borgarar úr Garðabæ tóku þátt í guðsþjónustunni ásamt sr. Friðriki J. Hjartar, presti í Garðabæ. Tveir þeirra Garðbæinganna lásu ritningarlestra, hjónin Kristján Þorgeirsson og Dóra Diego. Sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur, þjónaði, ásamt Friðriki Vigni Stefánssyni organista.
Undir lok guðsþjónustunnar þakkaði sr. Friðrik J. Hjartar fyrir móttökur og færði söfnuði Seltjarnarneskirkju bækur að gjöf frá söfnuði Vídalíns- og Garðakirkju. Öllum viðstöddum var boðið að þiggja glæsilegar veitingar í safnaðarsal kirkjunnar. Meðan á borðhaldi stóð lék Friðrik organisti undir almennan söng á harmóníku og á flygil. Kl. 10.30 á undan guðsþjónustunni flutti Guðmundur Einarsson stutt erindi fyrir Garðbæinga um Seltjarnarneskirkju í sögu og samtíð.