Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 var samþykkt með sex atkvæðum gegn einu atkvæði Guðmundar Magnússonar á fundi bæjarstjórnar í dag, mánudaginn 6. desember. Áætlunin var unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, Neslista og Samfylkingar líkt og gert var fyrir árið 2010.
Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 var samþykkt með 6 atkvæðum gegn einu atkvæði Guðmundar Magnússonar, forseta bæjarstjórnar á fundi bæjarstjórnar í dag, mánudaginn 6. desember. Áætlunin var unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, Neslista og Samfylkingar líkt og gert var fyrir árið 2010.
Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur samantekins ársreiknings 2011 er áætlaður 50 milljónir króna. Útsvarsprósenta á árinu 2011 verður 12,98%, sem er undir leyfilegu hámarksútsvari sem er 13,28%. Útsvarstekjur eru áætlaðar 1.620 mkr. Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 190 mkr. sem er sama álagning í krónum talið og árið 2010.
Alvarlegum samdrætti mætt
Við gerð áætlunarinnar var leitað allra leiða til þess að mæta alvarlegum samdrætti í tekjum bæjarins og kostnaðarhækkunum með áframhaldandi hagræðingu í rekstri að leiðarljósi. Þrátt fyrir verulegan niðurskurð útgjalda á sl. tveimur árum lá fyrir að að brúa þyrfti bil sem nemur um 10- 15% af skatttekjum bæjarins á yfirstandandi ári. Vandlega var farið yfir einstök rekstrarsvið og útgjaldaþætti í þeim tilgangi að ná fram enn meiri rekstrarhagræðingu, draga úr kostnaði og takast á við áleitnar spurningar um eðli, tilgang og réttmæti þeirra.
Launalækkun framlengd
Bæjarfélagið hefur undanfarið reynt að halda uppi sama þjónustustigi með minna fé til ráðstöfunar. Dregið hefur verið úr yfirbyggingu rekstrarins og mannaafl samrýmt á ýmsa vegu. Ströng hagræðingarkrafa er gerð til yfirstjórnar, sem og stjórnunardeilda stofnana sveitarfélagsins. Samþykkt er að framlengja lækkun launa stjórnenda bæjarins fyrir árið 2011, einnig verður framlengt að bæjarfulltrúar fái ekki greidd nefndarlaun fyrir árið 2011. Starfsfólk Seltjarnarnesbæjar tekur að sér aukin verkefni auk þess sem áhersla er lögð á enn frekara samstarf milli stofnana og deilda í því skyni að ná sem mestri rekstrarhagræðingu. Hagrætt verður í viðhaldsverkefnum og þeim forgangsraðað af brýnni þörf og öryggissjónarmiðum.
Erfið gerð fjárhagsáætlunar
Fjárhagsáætlunin er unnin á erfiðum tímum. Þjóðin tekst nú á við afleiðingar bankahruns og fjármálakreppu sem setja mark sitt á fjármál og rekstur sveitarfélaga, rétt eins og ríkissjóðs, fyrirtækja og heimilanna í landinu. Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 2% frá upphafi til loka ársins 2011. Óvissa um þróun helstu hagstærða á næstunni gerir forsendur hennar samt ótraustar svo og niðurskurður í ríkisútgjöldum og almenn hækkun skatta. Boðuð hækkun óbeinna skatta strax á næsta ári mun stuðla að hækkun verðlags og kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið. Spár gera ráð fyrir 9,5% til 11,5% atvinnuleysi í landinu. Svo mikið atvinnuleysi kemur illa við helsta tekjustofn sveitarfélaga, útsvarið. Þá má bæta við að kjarasamningar við flest stéttarfélög eru nú lausir en áætlunin gerir ekki ráð fyrir launahækkunum á næsta ári umfram gildandi samninga.
Grunnþjónusta verður varin
Við gerð fjárhagsáætlunarinnar var haft að leiðarljósi að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi, æskulýðs- og íþróttastarf og félagslega þjónustu. Með því er tekið mið af þeim áherslum sem fram komu á íbúafundi haustið 2009. Stefnt er að áframhaldandi samstarfi við íþróttafélagið um þróun íþrótta- og tómstundstarfs fyrir yngstu grunnskólanemendur, sem hefur stuðlað að þróun heildstæðs skóladags fyrir börn og fjölskyldur sem hefur verið markmið Seltjarnarnesbæjar í mörg ár. Einnig er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum vegna lögbundinna skuldbindinga bæjarins um að tryggja félagslegt öryggi íbúa og stuðla að velferð þeirra. Almennt er því gert ráð fyrir að gjaldskrár í þessum málaflokkum hækki einungis sem nemur verðlagshækkunum og taka flestar þeirra gildi 1. júlí á næsta ári.