Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent þann 15. maí síðastliðinn, við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsi við Hverfisgötu. Geir H. Haarde forsætisráðherra afhenti verðlaunin
Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent þann 15. maí síðastliðinn, við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsi við Hverfisgötu. Geir H. Haarde forsætisráðherra afhenti verðlaunin
Í ár hlutu Starfsfólk Tjarnarsels Foreldraverðlaunin 2008 fyrir verkefnið Lestrar- og skriftarhvetjandi umhverfi í leikskólanum Tjarnarseli. Hvatningarverðlaunin hlutu Grunnskóli Siglufjarðar fyrir verkefnið Átak gegn einelti.
Dugnaðarforksverðlaunin hlutu Ingibjörg Baldursdóttir og Svanhvít Guðbjartsdóttir fyrir verkefnið Þjóðardagur –Börnin okkar í Flataskóla.
Nilsína Larsen Einarsdóttir og Margrét Sigurðardóttir ásamt Geir H. Haarde
Gaman að geta þess að í ár var í fyrsta skipti félagsmiðstöð tilnefnd til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla og það var Félagsmiðstöðin Selið sem hlaut þá tilnefningu en foreldrafélag Grunnskóla Seltjarnarness tilnefndi. Margrét Sigurðardóttir og Nilsína Larsen Einarsdóttir tóku á móti viðurkenningu frá Geir H. Haarde forsætisráðherra. Einnig var Tónlistarskóli Seltjarnarness tilnefndur til Foreldraverðlauna í ár og var það Foreldraráð Grunnskóla Seltjarnarness sem tilnefndi.
Í umsögn um starfsemi Selsins segir eftirfarandi:
Selið er félagsmiðstöð sem starfar í nánu samstarfi við Grunnskóla Seltjarnarness, foreldrafélagið, unglingaráðgjafa og forvarnaryfirvöld á Nesinu. Mjög öflugt félagslíf er allan veturinn í Selinu og þar geta allir unglingar fundið eitthvað við sitt hæfi.
Sérstakur félagsmálabekkur er kenndur í skólanum sem starfsfólk Selsins hefur umsjón með og læra nemendur að skipuleggja viðburði og halda utan um eigið félagslíf. Hvetur þau til aukinnar þátttöku í félagslífi og um leið læra unglingarnir að hafa áhrif á umhverfi sitt. Mun fleiri bjóða sig nú fram í kosningum í skólanum, þegar þeir hafa fengið leiðsögn í framkomu og að setja skoðanir sínar fram með skipulögðum hætti.
Selið hefur fest sig í sessi sem miðstöð unglinga. Starfsfólkið er hins vegar með langan starfsaldur og þekkir vel allt grenndarsamfélagið, börnin, foreldrana og starfsfólk allra þeirra stofnana sem að börnum koma í bæjarfélaginu.
Það hefur gríðarlegt forvarnargildi að hafa þessi nánu tengsl þar sem hægt er að grípa inn í snemma ef stefnir í óefni. Selið er í mjög miklu samstarfi við foreldrafélagið og fundar reglulega með stjórn þess. Í sameiningu halda þessir aðilar úti mjög öflugu foreldrarölti bæði á föstudögum og laugardögum. Það hefur reynst öflugasta vopnið gegn eftirlitslausum samkvæmum unglinga og útivist unglinga eftir lögboðinn útivistartíma.
Í umsögn um Tónlistarskólann segir eftirfarandi:
Tónlistarskólinn leggur sig fram um að vera í góðum tengslum við foreldra. Fréttabréf er sent til foreldra tvisvar á ári og foreldraviðtöl haldin reglulega.
Fjölskyldur nemenda mæta mjög vel á alla tónleika og tónfundi á vegum skólans, sem eru ófáir. Í leikskólanum eru foreldrar hvattir til að mæta á vikulegar tónlistarstundir í leikskólanum, sem Tónlistarskólinn sér um.
Öflug foreldrafélög eru starfandi í öllum sveitum skólans. Þar taka foreldrar virkan þátt m.a. í fjáröflun, upplýsingaflæði, fararstjórn og skipulagningu í kringum viðburði og ferðir.
Tónlistarskólinn leggur ekki aðeins áherslu á að vera í góðum tengslum við foreldra, heldur einnig við allt bæjarfélagið. Þátttaka Tónlistarskólans er orðin fastur liður í nánast öllum stórviðburðum á vegum bæjarins.
Einstaklega gott samstarf við alla aðila bæjarfélagsins er ein sterkasta sérstaða Tónlistarskólans og gerir hann að virkum þátttakanda í samfélaginu – og gott betur, því með þessu starfi gerir hann einnig börnin og fjölskyldur þeirra að virkum þátttakendum í bæjarlífinu öllu. Þetta stuðlar m.a. að auknum samskiptum barna, fjölskyldna, foreldra og kynslóða á Seltjarnarnesi og hefur um leið jákvæð áhrif á allt bæjarlífið.