Fasteigna- og þjónustugjöld eru lægst á Seltjarnarnesi á höfuðborgarsvæðinu og nær helmingi lægri en á Álftanesi þar sem gjöldin eru hæst. Fasteignamat hækkaði um 20% á síðasta ári en sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa fæst lækkað álagningarstuðulinn til samræmis við það.
Meðalstór íbúð á höfuðborgarsvæðinu er 99 fermetrar og er metin á 18,6 miljónir króna samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins. Ef íbúðin er á Seltjarnarnesi þarf eigandinn að greiða rúmar 76.000 krónur í fasteignaskatt, vatnsskatt, holræsagjald og sorphirðugjald. Sé íbúðin hins vegar á Álftanesi eru gjöldin nær 121.000 krónur, það er að segja 45.000 krónum og 60% hærri en á Seltjarnarnesi.
Sömu sögu er að segja um einbýli. Einbýlishús á höfuðborgarsvæðinu er að meðaltali 210 fermetrar að stærð og metið á 38,4 milljónir. Fasteignagjöld af þeim eru frá 146.000 krónum á ári upp í 228.000 krónur eftir því í hvort húsið er á Seltjarnarnesi eða á Álftanesi og munar þar 82.000 krónum eða um 80%.
Ef smellt er á grafið hér fyrir neðan er hægt að sjá stækkaða mynd af því.