Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti endurskoðaða jafnréttisáætlun fyrir Seltjarnarnes á fundi sínum þann 23. apríl s.l. Jafnréttisnefnd vann áætlunina og vísaði henni til bæjarstjórnar til afgreiðslu. Þetta er þriðja jafnréttisáætlun bæjarfélagins en sú fyrsta var samþykkt í bæjarstjórn Seltjarnarness 13. desember 2000.
Meðal nýrra atriða í þessari áætlun eru tilmæli til stjórnenda bæjarfélagins að sjá til þess að ná fram markmiðum áætlunarinnar og að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna í allri starfsemi bæjarfélagsins.
Aukin áhersla er lögð á sem jafnasta skipan kynjanna í nefndir, ráð og stjórnir hjá Seltjarnarnesbæ. Vakin er athygli á kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni og ábyrgð allra aðila gagnvart slíku athæfi. Huga skal sérstaklega að kynjasamþættingu við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla, uppeldis, íþrótta- og tómstundastarfi.
Jafnréttisnefnd hefur einnig samþykkt að nota eftirfarandi logo sem merki nefndarinnar. Höfundur þess er Anna Kristín Jensdóttir nemandi í 10. bekk Valhúsaskóla.