Fara í efni

Danir styrkja framkvæmdir við Nesstofu

Danski styrktarsjóðurinn Augustinus Fonden veitti á dögunum myndarlegan styrk til endurbóta á Nesstofu. Um er að ræða 2.000.000 danskra króna eða um 22 milljónir íslenskra króna. Styrkurinn bætist við framlag Seltjarnarnesbæjar og stuðning menntamálaráðuneytisins gerir það að verkum að unnt verður að standa myndarlega að verkefninu.

Leif Mogens Reimann, Margrét Hallgrímsdóttir,Sigurbjörn Sveinsson, Jónmundur Guðmarsson, Þorsteinn GunnarssonDanski styrktarsjóðurinn Augustinus Fonden veitti á dögunum myndarlegan styrk til endurbóta á Nesstofu. Um er að ræða 2.000.000 danskra króna eða um 22 milljónir íslenskra króna. Styrkurinn bætist við framlag Seltjarnarnesbæjar og stuðning menntamálaráðuneytisins gerir það að verkum að unnt verður að standa myndarlega að verkefninu.

Nesstofa

Fyrir tilstuðlan hinna dönsku stjórnvalda landsins var á árunum 1761-63 reistur bústaður úr steini yfir nýskipaðan landlækni, Bjarna Pálsson. Húsið teiknaði danski hirðarkitektinn Jacob Fortling. Það reis af grunni við hlið gömlu bæjarhúsanna sem nú eru löngu horfin. Á efri hæð voru íveruherbergi en á neðri hæð m.a. stúdíum, apótek og rannsóknarstofa.

Árið 1772 var lyfsala aðgreind frá landlæknisembættinu. Í kjölfar þess fékk Björn Jónsson, lyfsali, hálfa jörðina til ábúðar og var Nesstofu skipt á milli þessara embætta. Var sú skipting eftir endilöngu húsinu. Í Nesstofu starfaði einnig ljósmóðir. Húsið komst í einkaeign þegar embættin tvö voru flutt til Reykjavíkur upp úr 1830.

Nesstofa hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1979 en gerður hefur verið samningur milli safnsins og Seltjarnarnesbæjar um að bæjaryfirvöld annist rekstur hússins og sýningu þess. Í húsinu er lækningaminjasafnið Nesstofusafn.

Viðgerð Nesstofu (úr greinargerð sérfræðinga)

Meginstefnan í viðgerðum á Nesstofu er að nálgast upphaflega gerð þess eins og kostur er. Eru þar annars vegar lagðar til grundvallar ítarlegar úttektarlýsingar frá 1763 og 1767 en hins vegar ummerki í húsinu sjálfu. Þorsteinn Gunnarsson arktitekt sem sagt hefur fyrir um viðgerðir hússins, hefur byggt tillögur sínar um endurgerð á þessu tvennu, auk rannsókna á varðveittum byggingum í Danmörku frá sjöunda áratug átjándu aldar.

Notkun

Húsið verður notað eftir viðgerðir þess og í samningi Þjóðminjasafns Íslands og Seltjarnarnesbæjar er kveðið á um að bæjaryfirvöld noti húsið með þeim hætti er samræmist eðli þess. Nesstofa er langelsta húsið í bænum. Húsið verður sýnt sem sýningarhlutur um sögu byggðar og húsagerðar, auk þess sem það verður notað á hátíðarstundum undir hátíðarsamkomur, fundarhöld og við undirritun merkra samninga.

Gera verður ráð fyrir því að ný notkun krefjist sérstakra úrbóta sem ekki fara í öllum atriðum saman við upprunalega gerð þess. Taka þarf tillit til öryggismála s.s. flótta- og útgönguleiða. Einnig verður að koma við raflýsingu, öryggiskerfi og miðstöðvarhitun og stigi upp á efri hæð verður að vera þannig að hann þoli eðlilega umferð. Allar úrbætur verða þannig gerðar að það sjáist að um sé að ræða viðbætur, sem ekki eru hluti upprunalegrar gerðar heldur nýjar.

Viðgerðarsaga

Farið var í viðgerðir á húsinu 1981 og stóðu þær fram til ársins 1986, en síðan hafa viðgerðir svo til alveg legið niðri um langt árabil og aðeins viðhaldi sinnt. Skipting framkvæmda milli hinna tveggja hluta hússins, austur- og vesturhluta, skýrist að miklu leyti af eignarhaldi og búsetu í því fram á tíunda áratug síðustu aldar.

Ýmsar útlitsbreytingar, sem gerðar hafa verið á Nesstofu á síðari árum, verða færðar til upprunalegs horfs. Viðgerðir innandyra eru þó langviðamesti viðgerðarþátturinn sem fram undan er. Gert hefur verið við vesturhluta jarðhæðar og er ekki ráðgert að gera þar meira að svo komnu máli. Hins vegar hefur ekkert verið byrjað á viðgerðum á austurhluta jarðhæðar og efri hæð.

Vestari hluti hússins var færður til upphaflegs horfs um 1980 eins og þá tíðkaðist að gera á vegum þjóðminjavörslunnar í landinu og hjá öðrum aðilum sem sinntu varðveislu gamalla húsa. Á síðari árum hafa áherslur í þessu efni breyst nokkuð og full ástæða til að ganga skemur í endurgerðum einstakra byggingarhluta nú heldur en gert var í vestanverðu húsinu. Hægt er að láta þessa tvo hluta hússins kallast á: Sýna í öðrum þeirra sambærileg ummerki um einstaka byggingarhluta sem búið er að endurgera í hinum. Þannig birtir húsið bæði upphaflega hluti og endurgerða og gefur um leið innsýn inn í mismunandi áherslur í viðgerðarmálum gamalla húsa.

Staðan í dag

Athuguð verða verksummerki eftir hlaðna milliverki á jarðhæð austurhluta, þar sem þeir munu hafa verið í upphaflegri gerð hússins skv. lýsingu, en þar eru nú léttir skilveggir. Sögur herma að holtagrjótið úr gömlu veggjunum liggi undir gólfborðum í herberginu. Á gólfi var líka múrsteinn, og er gert ráð fyrir því að hafa múrstein á viðgerðu herbergi, sem áður var eldhús, bæði í veggjum og á gólfi.

Eftir er að taka veggfóður og síðari tíma einangrun innan af útveggjum austurhluta hússins. Áferð veggjanna að innan verður sem líkust því sem hún upphaflega var. Síðari yfirborðsefni jarðhæðarlofta verða numin á brott og tekið mið af upphaflegri loftaáferð. Lampar verða valdir þannig að þeir dragi ekki til sín mikla athygli, en veiti hins vegar heppilega, almenna lýsingu svo að allir hlutir hússins njóti sín sem skyldi, ennfremur sem huga þarf að möguleikum á sérstakri lýsingu á tiltekna sýningarhluti.

Að lokum

Ljóst er að hér er um einstakt tækifæri á Íslandi til að kynna 18. aldar ummerki steinhúss, sem dönsk stjórnvöld létu reisa og er meðal elstu uppistandandi húsa á Íslandi. Húsið er byggt undir fyrsta landlækni á Íslandi og er því merkilegt með tilliti til lækningasögunnar. Verður kappkostað að standa eins vel að allri viðgerðinni eins og mögulegt er, en fjármagnsskortur hefur gert það að verkum fram til þessa að ekki hefur verið unnt fyrir Þjóðminjasafn Íslands, sem hefur umsjón með viðgerðum hússins, að sinna því sem nokkru nemur í rúma tvo áratugi.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?