Í dag, 16. nóvember er dagur íslenskrar tungu, en þann dag árið 1807 fæddist Jónas Hallgrímsson. Í tilefni dagsins stendur Grunnskóli Seltjarnarness fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls.
Mýrarhúsaskóli
Í byrjun nóvember hófst lestrarsprettur sem allir nemendur skólans tóku þátt í og sjá má merki um víða um skólann. Nemendur úr þremur elstu bekkjardeildunum fara í heimsóknir í yngri bekkina og lesa fyrir nemendur úr íslenskum barnabókum.
Nemendur vinna fjölbreytt verkefni t.d. lesa og syngja íslenska dægurlagatexta og myndskreyta þá. Búin verður til ,,orðabók” þar sem nemendur útskýra í máli og myndum sjaldgæf orð. Orðabókin verður síðan hengd upp á áberandi stað.
Nemendur fá kynningu á Jónasi Hallgrímssyni og unnið verður með ljóð hans og sögur á fjölbreyttan hátt og verkefnin kynnt með ýmsu móti.
Valhúsaskóli
Jónas Hallgrímsson var mikill málverndunarsinni og á móti slettum og tökuorðum. Þess vegna vinna nemendur m.a. með „nýyrðasmíð“. Hlustað verður á og unnið með ljóð eftir höfunda „gormabókarinnar“. Nemendur í 8. bekk horfa ennfremur á kvikmynd um Hrafnkelssögu sem sýnd verður í Félagsheimilinu.