Fara í efni

Dagskrá Menningarhátíðar kynnt

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, og Sólveig Pálsdóttir, formaður menningarnefndar, kynntu í gær dagskrá þriðju menningarhátíðar Seltjarnarness sem hefst á föstudaginn. Hátíðin verður með glæsilegasta móti að þessu sinni en yfirskrift hátíðarinnar er Seltjarnarnesið, sjórinn og útgerð.

Sólveig Pálsdóttir og Jónmundur Guðmarsson

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, og Sólveig Pálsdóttir, formaður menningarnefndar, kynntu í gær dagskrá þriðju Menningarhátíðar Seltjarnarness sem hefst á föstudaginn. Hljómsveitin Bertel tók lagið að lokinni kynningu og gaf forsmekkin af því sem koma skal.


Hátíðin verður með glæsilegasta móti að þessu sinni en yfirskrift hátíðarinnar er Seltjarnarnesið, sjórinn og útgerð. Uppákomur og sýningar eru vandaðar og hafa bæjarbúar ásamt fleirum lagt hönd á plóg til að koma upp viðamestu Menningarhátíð Seltjarnarness til þessa.


Dagskráin er fjölbreytt, má meðal annars nefna ljósmyndasýninguna Systir með sjóhatt sem verður á Bókasafni Seltjarnarness á Eiðistorgi. Ljósmyndirnar eru allt frá því fyrir aldamótin 1900 og sýna myndir úr lífi einnar fjölskyldu og niðja hennar á Nesinu allt fram yfir seinni heimsstyrjöld.


Þá býður Menningarnefnd Seltjarnarness og Nesskip bæjarbúum til morgunarverðar á Eiðistorgi á laugardagsmorgun þar sem Jón Þórisson leikmyndahöfundur, hljómsveitin 6íJazz, Ballettskóli Guðbjargar Björgvinsdóttur og danshópur Jóa sjá um að skapa útgerðarstemmningu. Börnin verða þar í aðalhlutverki.


Ókeypis verður í Sundlaug Seltjarnarness á laugardaginn, þar verður leikin lifandi tónlist og gjörningur verður framin ásamt einstakri kennslu Halldórs Bergmann í Müllersæfingum. Sama dag verða Fjörutónleikar í Bakkavör þar sem fram koma vinningshafar Músíktilrauna Shogun og Benni Hemm Hemm ásamt fleiri spennandi hljómsveitum. Verður rífandi útgerðarstemmning og margt um nýjungar á planinu í Bakkavör þar sem allir eru velkomnir.


Vinnustofur listamanna verða opnar víðsvegar um Nesið, þar er gestum og gangandi velkomið að líta við og sjá hvað listamennirnir eru að skapa.
Á sunnudag er boðið til listamessu í Seltjarnarneskirkju þar sem presturinn fer í hlutverk með Leiklistarfélagi Seltjarnarness sem flytur gjörninginn Lífshlaupið. Um tónlistina sér Guðni Franzson.


Menningarhátíð lýkur í Félagsheimili Seltjarnarness á sunnudagskvöldið með tónleikum Valgeirs Guðjónssonar og Jóns Ólafssonar Popplög í VG dúr.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?