Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja gildandi reglugerðir um takmarkanir á samkomum og skólastarfi óbreyttar til 9. desember næstkomandi. Þetta er gert í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis sem ræður gegn því að slaka á sóttvörnum núna vegna þess hvernig faraldurinn hefur þróast síðustu daga.
Eins og fram kemur í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis, dags. 29. nóvember, hafði hann áður gert ráð fyrir að hægt yrði að ráðast í varfærnar tilslakanir á gildandi sóttvarnalögum 2. desember og kynnt ákveðnar hugmyndir þar að lútandi fyrir ráðherra fyrir viku. Sóttvarnalæknir setti þó fyrirvara um að hann áskildi sér rétt til að endurskoða tillögur sínar um tilslakanir ef þróun faraldursins myndi breytast. Fram kemur hjá sóttvarnalækni að undanfarið hafi orðið breytingar á faraldrinum. Upp hafi komið hópsýkingar og smitum fjölgað. Þá virðist fjöldi þeirra sem greinast utan sóttkvíar stefna í línulegan vöxt og hugsanlegan veldisvöxt segir sóttvarnalæknir. Tillaga hans er sú að engar breytingar verði gerðar á gildandi sóttvarnaráðsstöfunum, þ.e. takmörkunum á samkomum og skólastarfi næstu eina til tvær vikur. Við endurskoðun sóttvarnaráðstafana sem hefjast þegar í stað, verður meðal annars horft til þess hvort tilefni sé til að gera tilslakanir á landsbyggðinni umfram höfuðborgarsvæðið í samræmi við hugleiðingar sóttvarnalæknis í meðfylgjandi minnisblaði, dags. 30. nóvember.
Sem fyrr segir felur ákvörðun ráðherra í sér óbreyttar sóttvarnaráðstafanir til og með 9. desember.
- Minnisblað sóttvarnalæknis, dags. 29. nóvember
- viðbót við minnisblaðið -
Reglugerð heilbrigðisráðuneytisins: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=9763634d-a4ba-4be1-bec9-a5cd804a73fa