Mikil gestaaukning hefur verið í Bókasafni Seltjarnarness í nóvember og desember sem helgast aðallega af fjölbreyttum viðburðum sem þar hafa verið í boði.
Mikil gestaaukning hefur verið í Bókasafni Seltjarnarness í nóvember og desember sem helgast aðallega af fjölbreyttum viðburðum sem þar hafa verið í boði.
Sýning Guðlaugs Arasonar, Álfabækur, var opnuð í safninu fimmtudaginn 7. nóvember að viðstöddu fjölmenni. Verk Guðlaugs eru einstök í sinni röð og hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir mikið hugvit og nákvæmni. Sýning hans stendur til ársloka.
Á höfundakynningu, sem haldin var í Bókasafninu þriðjudagskvöldið 26. nóvember var setið í sérhverju sæti og stól sem finna mátti í safninu, en um 200 manns sóttu viðburðinn.
Höfundarnir sem lásu úr verkum sínum og fjölluðu um þau undir dyggri stjórn Sigurðar G. Tómassonar voru Vigdís Grímsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson og Jón Kalman Stefánsson. Þau slógu á létta strengi og gestir í sal gátu svalað forvitni sinni með fjölbreyttum spurningum og spjalli.
Rithöfundarnir Sirrý Arnardóttir og Inga Björg Stefánsdóttir glöddu yngri kynslóðina með nærveru sinn í nóvember og lásu úr ný útkomnum bókum sínum, Tröllastrákurinn sem gat ekki sofnað og Undirborgir.
Við sama tilefni tóku þau Anna Ólafsdóttir 11 ára nemandi í Mýrarhúsaskóla og Dagur Þórisson 10 ára nemandi við sama skóla við viðurkenningunni Bókaverðlaun barnanna 2013 sem er samstarfsverkefni Bókasafns Seltjarnarness og Skólabókasafns Grunnskóla Seltjarnarness
Strengjasveit Helgu Þórarinsdóttur úr Tónlistarskóla Seltjarnarness hélt sína árvissu aðventutónleika í Bókasafninu en tónleikarnir eru samstarfsverkefni safnsins og Tónlistarskólans. Mikill áhugi var á tónleikunum, sem um sextíu manns sóttu. Leikin voru verk eftir Mozart og tónlist sem kom öllum í hátíðarskap.
Prjónanámskeið Héléne Magnússon fór fram tvo daga í nóvember og desember og voru þátttakendur um þrjátíu. Héléne hefur getið sér gott orð fyrir frumlega nálgun með prjónið, en meðal annars hefur hún staðið fyrir útvist þar sem í senn er gengið og prjónað. Á námskeiðinu lærðu þátttakendur m.a. að gera sérstakar jólabrúður.
Síðustu viðburðir Bókasafnsins fóru fram fyrstu vikuna í desember þar sem bókmenntafélagið fékk rithöfundinn Kristínu Marju Baldursdóttur til sín í heimsókn og ræddi bók hennar Kantötu og fékk að skyggnast inn í nýtt leikrit sem frumflutt verður eftir höfundinn í Borgarleikhúsinu í mars. Þá bauð Sirrý barnabókavörður yngstu börnunum upp á lestur og myndasýningu upp úr bókinni Hvað er að Leó ljón? eftir þá Robert Kraus og Jose Aruego.
Dagskrá bókasafnsins á nýju ári hefst með fundi bókamenntafélagsins þriðjudaginn 7. janúar kl. 19:30 þar sem lestrarfélagar ræða bækur sem þér tóku sér í hönd yfir jólin. Að vanda eru allir velkomnir.