Fara í efni

Bæjarhátíð Seltjarnarness 2022 og Fjölskyldudagur í Gróttu

Íbúar eru hvattir til að skreyta hús í sínum hverfislit og dagskrá bæjarhátíðarinnar er fjölskylduvæn og fjölbreytt m.a.Sjósund, Fjölskylduhátíð og hönnunarsýning í Gróttu, Bæjargrill, samsöngur og gleði á Vallarbrautarróló. BROT í Gallerí Gróttu, Speglaskúlptúr, BMX BRÓS, Græn uppskerumessa og Fjölskyldufjör í golfi, Sirkussýning í Bakkagarði. Sjá nánar:

BÆJARHÁTÍÐ SELTJARNARNESS verður nú loks haldin eftir 2ja ára hle helgina 26. - 28. ágúst. Íbúar eru hvattir til að skreyta hús sín og götur í sínum hverfislit en litirnir eru GULUR - RAUÐUR - GRÆNN eða BLÁR. Á kortinu hér að neðan má sjá hvernig hverfum hefur verið litaskipt í gegnum tíðina en auðvitað má leika sér með liti og skraut að vild.


Dagskrá bæjarhátíðarinnar er fjölskylduvæn og fjölbreytt en meðal viðburða eru Sjósund, Fjölskylduhátíð og hönnunarsýning í Gróttu, Bæjargrill, samsöngur og gleði á Vallarbrautarróló. BROT í Gallerí Gróttu, Speglaskúlpúr, BMX BRÓS sýning og þrautabraut við Björgunarsveitarhúsið, Græn uppskerumessa í kirkjunni og Fjölskyldufjör og þrautir í golfi í nýju inniaðstöðunni á Austurströnd og Sirkussýning í Bakkagarði.

HEILDARDAGSKRÁ BÆJARHÁTÍÐAR 2022




FÖSTUDAGUR 26. ágúst:

18.00 - SJÓBAÐ á Seltjarnarnesi með Maju og Gróu
Þær stöllur bjóða bæjarbúum með sér í sjóinn. Mæting er á bílastæðið fyrir neðan golfvöllinn þaðan sem farið verður í fjöruna. Gerðar öndunaræfingar, farið í sjóbað og fjör. Sjóbað er góð leið til að auka gleðihormón í líkamanum og því tilvalið tækifæri fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Gott að vera í sjósundskóm og með hanska eða í strigaskóm og lopavettlingum.


LAUGARDAGUR 27. ágúst:

Kl. 11.00 - 14.00 - FJÖLSKYLDUDAGUR Í GRÓTTU

  • Gróttuviti opinn - Einu sinni á ári býður Seltjarnarnesbær gestum í Gróttu að ganga upp í vitann og njóta hins óviðjafnanlega útsýnis þegar efst er komið.
  • Rjúkandi vöfflur, grillaðar pylsur, kaffi og djús til sölu í Fræðasetrinu og Albertsbúð á vegum Soroptimstaklúbbs Seltjarnarness til styrktar góðu málefni. Hagstætt verð: Vaffla & kaffi/djús 1000 kr. og Pylsa & djús 700 kr.

  • Klifurmeistarar úr klifurhúsinu ásamt Spiderman bregða á leik og klífa Gróttuvita kl. 11.30, 12.30 og 13.30.

  • Þorkell Heiðarssonlíffræðingur aðstoðar gesti við að rannsaka og greina lífríkið sem finna má í fjörunni við Gróttu. Tilvalið er því að taka með skóflu og fötu til að safna kuðungum, skeljum, kröbbum og öðrum dýrgripum

  • Margrét Arnarleikur létta og ljúfa tóna á harmonikku.

  • Albertsbúð - Félagar í Rótarýklúbbi Seltjarnarness verða á staðnum, segja frá og svara spurningum um þetta sögufræga hús, endurbæturnar og bryggjuna.

  • Söngstund með Friðriki Vigni Stefánssyni sem mætir með harmonikkuna í Albertsbúð og spilar gömlu góðu lögin frá kl. 12.00 - 12.30.

  • Gróttuföndur í Albertsbúð

  • Húllastelpan verður með húllafjör í eyjunni frá kl. 12.30 - 13.30
  • FINNDU MIG Í FJÖRU - Hönnunarsýning og smiðja í Vitavarðarhúsinu

    Helga R. Mogensen skartgripahönnuður opnar sýningu sem samanstendur af veggverkum, skartgripum og litlum stólum þar sem aðal efniviðurinn er rekaviður en Helga sækir í náttúruna og þá ekki síst í fjöruna. Á fjölskyldudeginum gefst gestum jafnframt tækifæri til að búa til sitt eigið listaverk undir handleiðslu listakonunnar.

    Helga útskrifaðist frá Edinburgh College of Art árið 2007 með BA gráðu í Skartgripahönnun og Silfursmíði. Helga hefur verið starfandi skartgripahönnuður frá útskrift og hefur sýnt verk sín á fjölda safna og í galleríum hérlendis og erlendis.


Kl. 8.00 - 16.00 - SPEGLAÐU ÞIG!
Með speglaskúlptúrnum er lögð áhersla á sjálfsást og mikilvægi þess að elska sjálfan sig eins og maður er – Þú fyrir þig! Speglaskúlptúrinn er hluti af geðræktarvegferð Nova og verður staðsettur á gönguleiðinni út að Snoppu.


Kl. 11.00 - 14.00 - BROT í Gallerí Gróttu

Sigrún Ólöf Einarsdóttir glerlistakona heldur sýningu í Gallerí Gróttu sem hugsuð er sem óður til náttúrunnar.

Í 40 ár hefur glerið verið félagi Sigrúnar, meistari og þjónn sem hún nýtir til þess að minna á óravíddir andstæðnanna í náttúrunni. Ath. Gengið inn frá Eiðistorgi, 2. hæð um helgina.

Allir velkomnir!


Kl. 16.00 - 17.00 - BMX BRÓS, Sýning og þrautabraut fyrir alla aldurshópa

 Orkuboltarnir í BMX BRÓS verða með skemmtilega BMX sýningu á planinu fyrir aftan Björgunarsveitarhúsið við Smábátahöfnina. Sýningin er kraftmikil upplifun sem fær hjörtun til að slá hraðar, áhorfendur eru miklir þátttakendur og er sýningin skemmtileg fyrir unga sem aldna.

Í lokin gefst þeim krökkum sem vilja tækifæri til að spreyta sig á hjólunum með leiðsögn frá BMX BRÓS.

Allir velkomnir enda viðburður sem enginn vill missa af!


Kl. 18.00 - 22.00 - BÆJARGRILL, SAMSÖNGUR OG STEMNING Á VALLARBRAUTARRÓLÓ

Útihátíðarstemning á Vallarbrautarróló í umsjón bæjarbúa með stuðningi Seltjarnarnesbæjar þar sem fjölskyldum á Nesinu býðst að hafa gaman saman. Veislutjald, borð og stólar á staðnum sem og tónlist og stemning fyrir allan aldur. Þátttakendur eru hvattir til að mæta skreyttir í sínum hverfislit.

Veitingar er á vegum íbúanefndarinnar í samstarfi við Gróttu og er nauðsynlegt að panta og greiða fyrir fram vilji menn njóta þeirra. Allar nánari upplýsingar um matinn og fyrirkomulagið á bæjargrillinu er á FB viðburði nefndarinnar: Bæjarhátíð 2022

Kl. 20.00 - Syngjum með Guðrúnu Árnýju
Stórsöngkonan Guðrún Árný mætir með píanóið og leiðir fjöldasöng meðal bæjarbúa, tekur á móti óskalögum og kemur öllum í rífandi stuð.

ALLIR VELKOMNIR!


SUNNUDAGUR 28. ágúst:


Kl. 8.00 - 16.00 - SPEGLAÐU ÞIG!

Með speglaskúlptúrnum er lögð áhersla á sjálfsást og mikilvægi þess að elska sjálfan sig eins og maður er – Þú fyrir þig! Speglaskúlptúrinn er hluti af geðræktarvegferð Nova og verður staðsettur á gönguleiðinni út að Snoppu.


Kl. 11.00 - GRÆN UPPSKERUMESSA í Seltjarnarneskirkju

Grænmetismarkaður að athöfn lokinni þar sem ferskt grænmeti verður selt á sanngjörnu verði til styrktar innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar.


Kl. 11.00 - 13.00 - FJÖR Í FJÖLSKYLDUGOLFI á Nesvöllum, Austurströnd 5

Nesklúbburinn býður bæjarbúum á öllum aldri að taka þátt í skemmtilegum þrautum í golfhermunum og púttaðstöðunni í nýju inniaðstöðu klúbbsins á Austurströnd. Heitt á könnunni og hressing fyrir börnin.

Allir velkomnir!


Kl. 11.00 - 14.00 - BROT í Gallerí Gróttu

Sigrún Ólöf Einarsdóttir glerlistakona heldur sýningu í Gallerí Gróttu sem hugsuð er sem óður til náttúrunnar.

Í 40 ár hefur glerið verið félagi Sigrúnar, meistari og þjónn sem hún nýtir til þess að minna á óravíddir andstæðnanna í náttúrunni. Ath. Gengið inn frá Eiðistorgi, 2. hæð um helgina.

Allir velkomnir!


Kl. 12.00 - 15.00 - FINNDU MIG Í FJÖRU - Hönnunarsýning í Vitavarðarhúsinu í Gróttu

Helga R. Mogensen skartgripahönnuður sýnir veggverk, skartgripi og litla stóla þar sem aðal efniviðurinn er rekaviður en Helga sækir í náttúruna og þá ekki síst í fjöruna.

Sýningin verður einnig opin frá kl. 13.00 - 15.00 mánudaginn 29. ágúst.


Kl. 15.00 - 15.30 - GLAPPAKAST, sirkussýning í Bakkagarði

Skemmtilega sirkussýningin með þeim Urði og Daníel sem koma sér stundum í klaufalegar aðstæður þegar þau sýna listir sínar. Á sýningunni má sjá loftfimleika, jöggl, akróbatík og brjálaða skemmtun.


NJÓTIÐ VEL OG HÖFUM GAMAN SAMAN Í BÆNUM OKKAR :)


HVERFAKORT - LITASKIPTING:









Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?