Í vetur verður kennslustundum í yngri bekkjum Grunnskóla Seltjarnarness fjölgað þannig að nemendur verða lengur fram á daginn. Þetta fyrirkomulag nýtir námstíma nemenda betur og dregur úr þörf foreldra fyrir gæsluúrræði. Meðal nýjunga sem unnt verður að taka upp með fjölgun kennslustundanna má nefna að hafin verður enskukennsla í 3. bekk, listgreinakennsla verður aukin og í 5. og 6. bekk verður bætt við kennslustundum í stærðfræði.
Leiklist verður hluti af skólanámkrá
Aukin áhersla verður lögð á list- og verkgreinakennslu í 2. og 3. bekk og tilraun verður gerð með svo kallað lotukerfi í þessum greinum. Helstu kostir þess eru taldir þeir að nemendur ná betra samhengi í það sem þeir eru að fást við hverju sinni og þeir sjá fyrr árangur vinnu sinnar. Að auki bætist leiklist við námskránna í fyrsta skipti en vonast er til að hún geti orðið nemendum lyftistöng í tjáningu og frekari listsköpun. List- og verkgreinar verða nú einnig kenndar á sama tíma svo kennarar einstakra árganga hafa betri möguleika á skipulagsstarfi og samvinnu fyrri hluta vinnudags í stað þess að sinna slíkri vinnu í lok kennsludags.
Fjölbreyttara nám í 7. til 9. bekk
7. bekkur mun í vetur ganga inn í fyrirkomulag elsta stigs og fara í faggreinastofur í einstökum námsgreinum í stað þess að hafa sínar heimastofur eins og verið hefur. Einnig er á dagskránni að reyna vinabekkjarfyrirkomulag í elstu deild með svipuðum hætti og gert hefur verið með góðum árangri í yngri deildum. Á elsta stigi verða einnig teknir upp svo kallaðir SAM tímar sem verða í lok skóladags á fimmtudögum. Þar verður fræðsla, uppákomur, námskeið og fleira ýmist fyrir einstaka bekki, árganga, alla nemendur á elsta stigi, eða sambland af þessu öllu.
Mörg spennandi nýbreytniverkefni
Skólinn fékk í vor styrk til að vinna að lýðræði í skólastarfi og verður áfram unnið að því verkefni í vetur. Auk þess verður haldið áfram með námskeið um einstaklingsmiðað nám í vetur þar sem einkum verður beint sjónum að námsmati. Einnig er í farvatninu spennandi verkefni í umhverfismennt og sótt hefur verið um styrk til verkefna í tengslum við nýjungar í sérkennslu.