Rekstur Seltjarnarnesbæjar gekk vel á síðastliðnu ári. Ársreikningurinn var samþykktur við seinni umræðu á fundi bæjarstjórnar en samkvæmt honum var niðurstaðan sú að rekstur sveitarfélagsins var jákvæður um 114 milljónir króna. Reikningurinn er nú í þriðja sinn gerður samkvæmt nýjum viðmiðum frá félagsmálaráðuneytinu en það er með sambærilegum hætti og tíðkast meðal fyrirtækja í landinu.
Miklar framkvæmdir voru á liðnu ári og var framkvæmt fyrir tæpar 90 milljónir króna á árinu. Handbært fé frá rekstri nam 240 milljónum króna og hækkaði um 74% hjá bæjarsjóð en 66% hjá samstæðunni. Fjármagnsliðir eru jákvæðir um rúma 41 milljón.
Hagnaður af rekstri sveitarfélagsins var nokkru minni en áætlanir gerðu ráð fyrir sem skýrist að mestu að því að gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar voru hærri en gert hafði verið ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða samstæðu var jákvæð um rúmar 48 milljónir en í áætlun var gert ráð fyrir um 107 milljóna króna hagnaði á árinu. Ef ekki hefði komið til mikil hækkun lífeyrisskuldbindinga hefðu áætlanir staðist.
Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri bæjarsjóðs tæpum 209 milljónum króna og handbært fé frá rekstri um 240 milljónum. Fjárfestingarhreyfingar samstæðu voru 86,8 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar námu samtals um 61 milljón. Þar er um að ræða afborgun langtímalána en engin ný langtímalán voru tekin á árinu. Hækkun á handbæru fé á árinu nam um 75 milljónum króna og nam handbært fé sveitarfélagsins í árslok um 110 milljónum króna.
Heildarlaunagreiðslur án launatengdra gjalda hjá samstæðunni voru tæpar 747 milljónir króna. Fjöldi stöðugilda var að meðaltali 250. Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins í hlutfalli við rekstrartekjur þess voru 59,6% en 56,3% án breytinga á lífeyrisskuldbindingum. Annar rekstrarkostnaður var 32,9% af rekstrartekjum. Skatttekjur sveitarfélagsins voru 283 þúsund krónur á hvern íbúa en tekjur samtals 352 þúsund krónur á hvern íbúa. Árið 2003 voru skatttekjur tæplega 281 þúsund krónur á hvern íbúa.
Fjármagnsliðir bæjarsjóðs voru jákvæðir um samtals 41 milljón króna. Vaxtatekjur námu tæplega 50 milljónum króna. Arður af eignarhlutum nam 23,2 milljónum króna. Verðbætur og gengismunur var jákvæður um 2,5 milljónir króna en vaxtagjöld námu 34,3 milljónum.
Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir bæjarsjóðs bókfærðar á rúmlega 2,7 milljarða en þar af eru veltufjármunir tæplega 496 milljónir. Veltufjárhlutfall samstæðu er 1,45 í árslok, en var 1,24 árið áður. Bókfært eigið fé nemur 1.529 milljónum króna í árslok sem er 57% af heildarfjármagni sem er svipað hlutfall og 2003.