Fara í efni

Andrúm Arkitektar hlutskarpastir í hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla á Seltjarnarnesi

Föstudaginn 17. maí var tilkynnt um sigurvegara og veittar viðurkenningar í hönnunarsamkeppninni um nýjan leikskóla á Seltjarnarnesi auk þess sem opnuð var sýning á Eiðistorgi með öllum innsendum keppnistillögum. 

Hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla á Seltjarnarnesi - Niðurstöður dómnefndar

Föstudaginn 17. maí var opnuð sýning á Eiðistorgi á öllum innsendum keppnistillögum í hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla á Seltjarnarnesi. Við sama tækifæri var tilkynnt um sigurvegarann og veittar viðurkenningar. Áhugi á keppninni var mjög mikill en alls bárust 27 tillögur frá innlendum og erlendum arkitektum. Sýningin á Eiðistorgi stendur til 21. maí nk.

Vinningshafar í hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla


Fyrstu verðlaun hlutu Andrúm arkitektar með tillögu sína Undrabrekka en höfundar tillögunnar eru arkitektarnir Haraldur Örn Jónsson, Hjörtur Hannesson og Kristján Garðarsson. Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna segir:

Mjög metnaðarfull tillaga sem mætir vel forsendum í keppnislýsingu. Heildaryfirbragð leikskólans er áhugavert  og ásýnd hans styrkir miðbæjarrými Seltjarnarness. Byggingin er skemmtilega brotin upp og vel staðsett á lóð með tilliti til aðkomu og umferðar. Með því að byggja yfir bílastæði náði þessi tillaga stærsta útisvæði þeirra tillagna sem komust á 2. þrep keppninnar. Áfangaskipting er góð og veldur lítilli röskun á núverandi starfsemi á byggingartíma. Tillagan uppfyllir vel hugmyndafræði varðandi stærð rýma, innra fyrirkomulag og bætir stöðu leikskólabarna til muna, þar sem lagt er upp með að búa börnum og starfsfólki góða vinnuaðstöðu. Form byggingarinnar er áhugavert og spennandi þar sem leikskóladeildir teygja sig út í umhverfið frá miðrými leikskólans. Lausnir og efnisval taka tillit til byggingarkostnaðar, rekstrarkostnaðar, umhverfisþátta og endingar.  Tillagan er sérlega vel unnin í alla staði og framlögð gögn til fyrirmyndar.


Þremur öðrum tillögum voru veitt sérstök verðlaun. Höfundar þeirra eru THG arkitektar, ASK arkitektar ehf og Teiknistofa arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar ehf.

Vinningshafar í hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla

Að auki fengu þrjár tillögur viðurkenningu í formi innkaupa, en höfundar þeirra eru teymið Andrei Ducu Pedrescu, Horia Racovitan, Kristín Lýðsdóttir, Lucian Racovitan, Páll Jökull, Philip Rufus, Sarkis Sarkysian og Sigþrúður Dóra Jónsdóttir, VA arkitektar og tillaga frá Kjellgren Kaminsky Architecture AB, Mareld Landskapsarkitekter AB og Teikn Arkitektaþjónustu ehf.

Á sýningunni á Eiðistorgi gefst öllum áhugasömum tækifæri til að skoða allar 27 keppnistillögurnar, hverjir standa á bak við þær og umsagnir dómnefndar. Verðlaunatillögur eru auðkenndar sérstaklega. 

Vinningshafar í hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla Vinningshafar í hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla


Hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla á Seltjarnarnesi - Keppnislýsing

 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?