Árlegur fjölskyldudagur í náttúruperlunni Gróttu var síðasta laugardag 21. apríl.
Árlegur fjölskyldudagur í náttúruperlunni Gróttu var síðasta laugardag 21. apríl.
Opið var Gróttu milli 10:30 - 14:30 og streymdu gestir út í eyjuna um leið og hún opnaði og var stöðugur straumur fólks allan tímann sem opið var enda veður einstaklega gott.
Að þessu sinni var sérstaklega minnt á að núverandi Gróttuviti verður 65 ára í ár.
Margir lögðu leið sína upp í vitann og á neðstu hæðinni var sýning um sögu vita á Íslandi.
Kristján Sveinsson, sagnfræðingur, flutti erindi um vitann í Albertsbúð og var fullt út úr dyrum.
Í tilefni afmælisins föðmuðu gestir vitann!
Í Albertsbúð var notaleg helgistund í umsjá sr. Bjarna Þórs Bjarnasonar þar sem sungnir voru sálmar og sumarlög.
Í Fræðasetrinu var hægt að kaupa kaffi og rjómavöfflur og nýttu margir sér það þó sumir kæmu með eigið nesti og nytu þess að borða úti í góða veðrinu.
Margir lögðu leið sína í fjöruna og rannsökuðu lífríkið og allt í einu fylltist fjaran neðan við Albertsbúð af kajökum
og áðu ræðarar um stund – fengu sér hressingu og nutu hvíldar.
Það voru glaðir og lúnir ferðalangar sem kvöddu Gróttu að þessu sinni.