Foreldrar barna sem njóta þjónustu dagforeldra á Seltjarnarnesi eru almennt mjög ánægðir með þeirra störf, samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar sem lögð var fyrir síðla vetrar. Rúmlega 93% þeirra sem tóku þátt í könnuninni eru mjög ánægðir eða frekar ánægðir með þjónustuna.
Foreldrar barna sem njóta þjónustu dagforeldra á Seltjarnarnesi eru almennt mjög ánægðir með þeirra störf, samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar sem lögð var fyrir síðla vetrar. Rúmlega 93% þeirra sem tóku þátt í könnuninni eru mjög ánægðir eða frekar ánægðir með þjónustuna.
Allir foreldrar sem þátt tóku í könnuninni telja að líðan eigin barns sé mjög góð í daggæslunni og að dagforeldrar leggi sig fram við að koma á móts við þarfir þeirra og væntingar. Foreldrar eru undantekningarlaust mjög eða frekar sammála því að öryggisþáttum sé vel sinnt auk þess sem allir sögðu sig mjög ánægða með samskipti, dagskipulag og aðlögun barna að dagvistuninni.
Dagforeldrar vinna mikilvægt umönnunar- og uppeldisstarf og bera ábyrgð á andlegri og líkamlegri velferð barna í þeirra umsjón. Í könnuninni, sem unnin var af fræðslusviði Seltjarnarnesbæjar, var leitast við að afla upplýsinga varðandi þessa þætti. Það er ljóst af niðurstöðum könnunarinnar að á Seltjarnarnesi er góður hópur dagforeldra sem sinnir mikilvægri þjónustu af miklum sóma.
Niðurstöður könnunarinnar í heild má sjá á slóðinni: http://www.seltjarnarnes.is/static/files/frettir/skyrslur-utgafur/dagforeldr-konnunpdf.pdf