Fara í efni

Allir Seltirningar fá aðgang að NemaNeti

Á Bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 16. nóvember undirrituðu Námsstofan og Seltjarnarnesbær samkomulag um framhald og útvíkkun á tilraunaverkefni um heimanámskerfið NemaNet.

Á Bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 16. nóvember undirrituðu Námsstofan og Seltjarnarnesbær samkomulag um framhald og útvíkkun á tilraunaverkefni um heimanámskerfið NemaNet. Síðast liðið skólaár var kerfið kynnt fyrir nemendum 9. og 10. bekkja Grunnskóla Seltjarnarness og fengu nemendur aðgangslykla að kerfinu í tilraunaskyni.

Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Sigrún Edda Jónsdóttir

Á síðasta ári var kerfið var einnig prufukeyrt í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu sem gafst mjög vel. Háskólinn í Reykjavík hefur, meðal annarra, ákveðið að styðja við þróun verkefnisins. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir námsráðgjafi er höfundur kerfisins og byggir það námskenningu hennar er birtist í bókinni „Lærum að nema“ sem gefin var út af Máli og menningu árið 2004.

NemaNetið er veflægt námstækniforrit sem er einfalt í notkun og stuðlar að markvissum aðferðum til náms og lestrar. Það er fyrst og fremst hugsað sem hjálpartæki í náms- og kennslutækni og er fyrir alla nemendur og kennara sem geta nýtt sér veraldarvefinn í námi og starfi. NemaNetið gagnast einnig foreldrum og gefur þeim meira sjálfstraust til að aðstoða börn sín við heimanámið. 

Á NemaNetinu er hægt að vinna og vista gögn svo sem. glósur og ritgerðir og fleira.  Gögnin geymist þá á miðlægum gagnagrunni veraldarvefsins eru því minni líkur á að gögn glatist eða þeim verði stolið. Þá er vissulega kostur að geta haft aðgang að námsgögnum hvar og hvenær sem er.

Þá ætti NemaNetið að undirbúa unga nemendur til  að takast á við nám á æðri skólastigum. NemaNetið nýtist vel í símenntun og fullorðinsfræðslu og fyrir einstaklinga í atvinnulífinu. Margir snúa aftur á skólabekk eftir langt hlé og geta nýtt kerfið til að takast á við viðfangsefni námsins. Notagildi NemaNetsins hentar því mjög vel fyrir þá sem sem stunda fjarnám.

Með framlengingu samkomulags Seltjarnarnesbæjar og Námsstofunnar hefur verið gerð breyting þess eðlis að nú hafa allir nemendur og íbúar á Seltjarnarnesi aðgang að NemaNetinu. Aðgangur er óháður skólastigi enda nýtist NemaNetið framhalds- og háskólanemum jafnt sem nemendum grunnskóla.  NemaNet er því spennandi viðbót við aðra rafræna þjónustu Seltjarnarnesbæjar.

NemaNetið verður aðgengilegt fyrir alla Seltirninga sem eru 18 ára og eldri í gegnum Rafrænt Seltjarnarnes og fyrir yngri íbúa með aðgangslyklum sem þeir fá en kerfið verður nánar kynnt á næstunni.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?