Fara í efni

Afreksfólk í stærðfræði í heimsókn hjá bæjarstjóra

Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi bauð á dögunum sigurvegurum stærðfræðikeppni grunnskólanema í heimsókn ásamt skólastjóra og stærðfræðikennara krakkanna.

Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi bauð á dögunum sigurvegurum stærðfræðikeppni grunnskólanema í heimsókn ásamt skólastjóra og stærðfræðikennara krakkanna. Bæjarstjóri var að vonum ánægður með árangur nemendanna og Grunnskólans í keppninni og ekki síður almenna þátttöku nemenda skólans í henni. Hann sagði það mikil verðmæti fyrir bæjarfélagið fólgin í svo öflugu skólastarfi sem raun ber vitni og ánægjulegt að sjá hve vel nemendur nýta sér þau tækifæri sem felast í grunnskólagöngunni.

Brynja Matthíasdóttir, Sigfús Grétarsson, Jónmundur Guðmarsson, Árni Freyr Gunnarsson, Tryggvi Ragnarsson, Vilborg Guðjónsdóttir og Aðalheiður Guðjónsdóttir.Á myndinni eru frá vinstri: Brynja Matthíasdóttir, stærðfræðikennari í Valhúsaskóla, Sigfús Grétarsson, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness, Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, Árni Freyr Gunnarsson, Tryggvi Ragnarsson, Vilborg Guðjónsdóttir og Aðalheiður Guðjónsdóttir, nemendur í Valhúsaskóla. (c) 2006 Óskar Sandholt

Sem kunnugt er voru nemendur úr Valhúsaskóla sigursælir í stærðfræðikeppni grunnskólanema. Árni Freyr Gunnarsson sigraði keppnina, Tryggvi Ragnarsson varð í 4. sæti og Vilborg Guðjónsdóttir varð í 8. sæti í keppni 10. bekkinga. Systir Vilborgar, Aðalheiður Guðjónsdóttir varð síðan í 6. sæti í keppni 8. bekkinga. Um 108 nemendur úr Valhúsaskóla tóku þátt í keppninni.

Stærðfræðikeppni grunnskólanemenda hefur verið haldin undanfarin fjögur ár í Menntaskólanum í Reykjavík fyrir átta grunnskóla í mið- og vesturbæ Reykjavíkur. Verkefni keppninnar eru samin af stærðfræðikennurum Flensborgarskólans í Hafnarfirði. Alls tóku tæplega 300 nemendur þátt í keppninni í ár.




Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?