Fara í efni

40 ára afmælistímarit Seltjarnarnesbæjar komið út

Í dag, á Jónsmessu 24. júní, afhenti Katrín Pálsdóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarness Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra fyrsta eintakið af veglegu 40 ára afmælisriti Seltjarnarnesbæjar. Í blaðinu er litið yfir farinn veg en auk þess er svipmynd brugðið á málefni líðandi stundar í samfélaginu. 
Í dag, á Jónsmessu 24. júní, afhenti Katrín Pálsdóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarness Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra fyrsta eintakið af veglegu 40 ára afmælisriti Seltjarnarnesbæjar. Í blaðinu er litið yfir farinn veg en auk þess er svipmynd brugðið á málefni líðandi stundar í samfélaginu. 

Burðarviðtal blaðsins er við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta, sem rifjar upp árin á Nesinu þegar hann bjó þar sem ungur fjölskyldufaðir. Þá er rætt við Sigurgeir Sigurðsson fyrrverandi bæjarstjóra sem hefur öðrum stjórnendum fremur sett mark sitt á bæjarfélagið en löng seta hans í bæjarstjórastól er einsdæmi á Íslandi og þó víðar væri leitað. 

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri flytur bæjarbúum ávarp þar sem hún nefnir meðal annars að það séu forréttindi að fá að starfa að uppbyggingu í slíku bæjarfélagi sem Seltjarnarnes er. Helstu forvígiskonur í grunnskóla Seltjarnarness þær Ólína Thoroddsen og Helga Kristín Gunnarsdóttir eru teknar tali og Soffía Guðmundsdóttir leikskólastjóri fer yfir þær gríðarlegu breytingar sem verið hafa í starfi leikskólans frá því hún hóf þar störf fyrst fyrir um 30 árum síðan.

Stefán Bergmann líffræðingur bregður ljósi á Seltjarnarnes sem kjörinn vettvang fyrir kennslustað í náttúrfræði og sögu og bendir á sína eftirlætisstaði á Nesinu. Pétur H. Ármannsson arkitekt tekur út byggingarlistarsögu Seltjarnarness í máli og myndum og Þórður Búason, skipulags- og byggingarfulltrúi ræðir forgangsverkefni og fyrirhyggjusemi bæjarfélagsins. Blómlegu menningarlífi bæjarins eru gerð góð skil, vikið er að uppbyggingu í Gróttu, sem Guðmundur Ásgeirsson hefur haft forgöngu um, og fráfarandi garðyrkjustjóri bæjarins, Steinunn Árnadóttir, dregur saman þær gríðarlegu breytingar sem orðið hafa á landslagi bæjarins í þá rúma tvo áratugi sem hún starfaði þar. 

Sr. Bjarni Þór Bjarnason rekur merkilega kirkjusögu Seltjarnarness og sagt er frá hinum sögufræga stað við Nes. Hernaðarlegt mikilvægi Seltjarnarness í síðari heimsstyrjöldinni er fjarri okkur nú, en sagnfræðingurinn Þór Whitehead blæs lífi í þær endurminningar. Gildi öflugs íþróttastarfs, sem og ávinningurinn af jákvæðu uppbyggingarstarfi í lífi og starfi ungra og eldri borgara fá sinn sess í blaðinu. Þá rekur Haukur Óskarsson hálfrar aldar sögu Golfklúbbsins Ness.

Í myndskreyttri tímalínu, sem þræðir sig í gegnum blaðið, er stiklað á stóru í sögu Seltjarnarneshrepps frá árinu 1200 til ársins 1974 þegar hreppurinn öðlaðist kaupstaðarréttindi. Bæjarbúar láta ljós sitt skína og skemmtilegir fróðleiksmolar um Nesið ættu að svala forvitni lesenda.

Útgefandi blaðsins er menningar- og samskiptasvið Seltjarnarnesbæjar. Ritstjóri er Soffía Karlsdóttir, en ritnefnd skipa þau Bogi Ágústsson, Guðmundur Ari Sigurjónsson, Karl Pétur Jónsson, Katrín Pálsdóttir, Kristín Arnþórsdóttir, María Björk Óskarsdóttir, Ólafur Egilsson og Sólveig Pálsdóttir. Aðal ljósmyndari blaðsins er Hari. Blaðið er unnið í samvinnu við Athygli en hönnun og umbrot er í höndum Elsu Nielsen, sem einnig hannaði ævintýralega útfærslu af einu helsta kennileiti bæjarins, Gróttu, sem prýðir forsíðu blaðsins.

Blaðinu verður dreift til allra bæjarbúa miðvikudaginn 25. júní með Fréttablaðinu. Þeir sem ekki fá eintak geta nálgast það á skrifstofu bæjarins að Austurströnd 2. 

Smellið á blaðið til að skoða vefúgáfu.  
  
Afmælisrit

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?