Íþrótta- og tómstundaráð ásamt menningarnefnd höfðu sameiginlega umsjón með 17. júní á Seltjarnarnesi í ár og var skemmtunin mjög vel heppnuð. Var fjölmennt mjög og sjaldan verið eins margir samankomnir á bæjarhátíð á Nesinu.
Ástsælustu listamenn landsins komu fram á Eiðistorgi og í Félagsheimilinu, má þar helst nefna Jóhönnu Guðrúnu, Friðrik Ómar, Guðrúnu Gunnarsdóttur, Sirkus Íslands, Villa og Sveppa.
Þá setti listahópur Seltjarnarness heldur betur svip sinn á hátíðina, margir voru trúðslega skreyttir og léku listir sínar. Aðrir spiluðu og sungu undurfagra tónlist í Félagsheimilinu.
Guðbjörg Hilmarsdóttir var glæsileg sem fjallkonan og mega Seltirningar vera stoltir af þeirri ungu upprennandi söngkonu.
Veðrið lék við bæjarbúa og var suðræn stemmning á Eiðistorgi og buðu eigendur Rauða ljónsins yngri kynslóðinni upp á íspinna sem voru vel þegnir í hitanum.
Eru aðstandendur þjóðhátíðardagsins sérstaklega þakklátir öllum þeim sem unnu við hátíðina og þá sérstaklega þeim sem gáfu vinnu sína til skemmtunar bæjarbúum.