Fara í efni

17. júní gleði á Seltjarnarnesi

Þann 17. júní síðastliðinn gerðu Seltirningar sér glaðan dag með bílasýningu, hátíðarmessu, skrúðgöngu, hoppuköstulum og skemmtiatriðum.

17. júní 2012Þann 17. júní síðastliðinn gerðu Seltirningar sér glaðan dag með bílasýningu, hátíðarmessu, skrúðgöngu, hoppuköstulum og skemmtiatriðum.

Allt byrjaði þetta á fornbílasýningunni sem haldin var á planinu hjá íþróttahúsinu og voru þar mörg skemmtileg eintök, sá elsti frá árinu 1929. Að bílasýningu lokinni kl 11:00 var hátíðarmessa haldin í Seltjarnarneskirkju þar sem að Séra Bjarni þjónaði fyrir altari. Því næst var gengin hin árlega skrúðganga, að þessu sinni var farið frá Vegamótum og gengið  að Eiðistorgi með frábæran undirleik frá Lúðrasveit Seltjarnarness.

Þegar að komið var á Eiðistorg höfðu bæjarstarfsmenn áhaldahúss sett upp hoppukastala og trampolín á bílaplaninu fyrir yngri kynslóðina og þegar að gengið var inn á sjálft Eiðistorg var þjóðhátíðarsælgæti selt og skemmtidagskrá að hefjast.

Fyrstur á svið var Lárus B. Lárusson formaður íþrótta- og tómstundarráðs og setti hátíðina formlega. Á eftir Lárusi steig á svið fjallkonan, sem í ár var Þórunn Guðjónsdóttir og flutti hún ljóð eftir Halldór Laxness.

Því næst fór hörku dagskrá af stað og meðal atriða voru: Söngvaborg, Lilli klifurmús og Mikki refur úr Dýrunum í Hálsaskógi, skemmtilegar hundakúnstir og risakór sem samanstóð af krökkum úr Mýrarhúsaskóla og heldri borgurum en þau kalla sig Litlu snillingarnir og Gömlu meistararnir. Formlegri dagskrá var svo slitið með atriði með Eurovisionförunum Jónsa og Grétu Salóme.  Er óhætt að setja að hátíðarhöldin hafið tekist með eindæmum vel.
Húrra!

17. júní 2012

 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?