17. júní hátíðarhöldin tókust með eindæmum vel í ár. Dagskráin var metnaðarfull og margt var um manninn. Þess ber að merkja að fjöldi bæjarbúa sem taka þátt hátíðarhöldunum virðist fara stigvaxandi með ári hverju, enda þægilegt að geta rölt út úr húsi og notið skemmtidagskrár fyrir alla fjölskylduna.
Björgvin Franz fór á kostum á Eiðistorgi ásamt mörgum öðrum skemmtikröftum s.s. Sirkus Íslands, Jóni Víðis töframanni, Lilju Björk, dansatriði og barnakór. Þá var vel mætt í þjóðlegt kaffihlaðborð sem 4. flokkur fótbolta í Gróttu stóð fyrir og Regína Ósk skemmti ásamt Listahópi Seltjarnarness. Smábátafélagið Sigurfari og Björgunarsveitin Ársæll buðu bæjarbúum í bátsferð á spíttbátum sem gerði mikla lukku.
Fornbílaklúbbur Íslands setti sinn svip á daginn þar sem um 80 gömlum og eldgömlum bílum var snyrtilega raðað á bílastæðið fyrir framan sundlaugina. Veður var gott og börnin fengu að fara á hestabak og hoppa á trampólínum og hoppukastölum. Þjóðhátíðarnefnd ÍTS þakkar öllum skemmtikröftum og starfsfólki hjartanlega fyrir að samstarfið og þátttöku á þjóðhátíðardeginum.