Fara í efni

17. júní 2020: Flöggum og fögnum - Gleðjumst og grillum

Í ljósi aðstæðna vegna Covid-19 þá verða ekki hefðbundin 17. júní hátíðarhöld á Seltjarnarnesi en við hvetjum íbúa hins vegar eindregið til að halda daginn hátíðlegan og njóta samveru með fjölskyldu, vinum eða nágrönnum.

17. júní 2020

17. júní 2020 dagskrá

FLÖGGUM & FÖGNUM - GLEÐJUMST OG GRILLUM

Kæru íbúar!

Þetta ár hefur svo sannarlega sett mark sitt á sögubækurnar hjá þjóðinni sem og heimsbyggðinni allri. COVID-19 hefur gert það að verkum að ekkert er hefðbundið eða venjulegt og allir hafa þurft að aðlagast breyttum aðstæðum. Þjóðin hefur svo sannarlega staðið saman í baráttunni gegn þessari skæðu veiru og árangurinn verið góður. Áfram þurfum við að fara gætilega og standa saman með það að markmiði að viðhalda árangrinum. Þrátt fyrir töluverðar tilslakanir þá búum við enn við fjöldatakmarkanir og reglur er varða sóttvarnir og við þurfum að virða öll tilmæli sem okkur eru sett.

Framundan er 17. júní, þjóðhátíðardagur Íslendinga. Undir venjulegum kringumstæðum myndum við hér á Seltjarnarnesinu fagna saman með skrúðgöngu sem leidd væri af Lúðrasveit Tónlistarskólans og efna til hátíðardagskrár í Bakkagarði. Sökum þeirra sérstöku aðstæðna sem við sem þjóð búum nú við er Seltjarnarnesbæ ekki fremur en öðrum sveitarfélögum unnt að standa fyrir hátíðarhöldum með hefðbundnum hætti þetta árið. Við munum þó auðvitað venju samkvæmt gera okkur dagamun,  skreyta bæinn og draga íslenska fánann að húni til að minnast stofnunar lýðveldisins eins og vera ber á 17. júní.

Við hvetjum Seltirninga til slíks hins sama og leggjum til að allir flaggi á sinn hátt. Dragi íslenska fánann að húni eða setji litla fána út í garð, á svalir eða í glugga. Leikum okkur að telja fána við húsin enda tilvalið að fara í góða göngu, njóta útiveru og alls þess sem fallega Seltjarnarnesið hefur upp á að bjóða. Hátíðaropnun verður í sundlauginni og ísbíllinn mun keyra um Nesið með ís í boði bæjarins fyrir börnin.

Umfram allt óskum við þess að bæjarbúar eigi í vændum góðan dag og njóti samveru með fjölskyldu, vinum og/eða nágrönnum – grilli og gleðjist saman!


Njótum og höfum gaman saman á 17. júní

  • Sund á 17. júní - Sundlaug Seltjarnarness verður með hátíðaropnun frá kl. 9-17 á þjóðhátíðardaginn og því er tilvalið að eiga notalega stund saman í sundi. 
  • Rótarýmessa í Seltjarnarneskirkju kl. 11 - Forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness, Árni Ármann Árnason, flytur hugleiðingu. Kaldalónsskálin verður afhent nemanda Tónlistarskólans sem þótti skara fram úr. Veitingar að messu lokinni og allir bæjarbúar eru hjartanlega velkomnir.
  • Teljum fána - Taktu þátt í léttum leik, teldu fána sem þú sérð á Nesinu á 17. júní og sendu okkur fjöldann ásamt nafni, aldri og símanúmeri á 17juni@seltjarnarnes.is eða með því að fylla út rafrænt eyðublað hérDregið verður úr innsendum svörum þann 19. júní og fjölmörg barnvæn og sumarleg verðlaun veitt.
  • Ís í boði bæjarins - Ísbíllinn keyrir um Nesið á milli kl. 16-20 á þjóðhátíðardaginn og stendur börnum til boða að sækja sér einn 17. júní frostpinna í boði bæjarins. Bjalla ísbílsins hringir reglulega í hverfum bæjarins á meðan birgðir endast.
  • Gleðjumst og grillum - Íbúar eru hvattir til að gera sér glaðan dag og grilla saman á 17. júní hvort sem er fjölskylda, vinir eða jafnvel öll gatan með götugrill og fjölskyldustemningu.
  • Til fyrirmyndar - Þann 17. júní hefst á landinu hvatningarátak tileinkað Vigdísi Finnbogadóttur og íslensku þjóðinni. Seltjarnarnesbær tekur þátt og hefur af því tilefni látið mála tvo veggi sem tilvaldir eru til myndatöku. Annar veggurinn er á Valhúsaskóla og hinn nærri Gróttu.

    Takk fyrir að vera til fyrirmyndar – bæjarbúar eru eindregið hvattir til að vera með, taka mynd við veggina á Seltjarnarnesi og deila á instagram eða fésbókinni merkt: #tilfyrirmyndar og @tilfyrirmyndar


GLEÐILEGAN ÞJÓÐHÁTÍÐARDAG





Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?