Miðvikudaginn 9. desember 2020 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar með fjarfundarbúnaði.
Fundinn sátu: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).
Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
-
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 – síðari umræða.
Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2021.
Forseti gef bæjarstjóra orðið og fór bæjarstjóri yfir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir árið 2021.
Fjárhagsáætlun 2021 var unnin af fjármálastjóra og sviðstjórum bæjarins, með það að leiðarljósi að styðja vel við grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Þetta verklag hefur gefist vel og undirstrikar skilning stjórnenda stofnana á fjármálum bæjarins. Vil ég þakka starfsmönnum bæjarins gott samstarf á liðnu ári. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árin 2022-2024.
Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 3% frá upphafi til loka ársins 2021.
Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2021 er m.a.:
Álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt 13,70 með vísan til 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.
Fasteignagjöld:
A-hluti – íbúðarhúsnæði, álagningarhlutfall 0,175% af fasteignamati
B-hluti – opinbert húsnæði, álagningarhlutfall 1,32% af fasteignamati
C-hluti – atvinnuhúsnæðis og óbyggt land, álagningarhlutfall 1,1875% af fasteignamati
D-Lóðarleiga: A-hluta 0,40% og B-hluta 1,75% af lóðarhlutamati
Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,09% af fasteignamati húsa.
Fráveitugjald: Álagningarhlutfall 0,15% af fasteignamati húsa.
Sorp- og urðunargjald kr. 42.612.- á hverja eign
Laun eru hækkuð til samræmis við gildandi kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.
Ekki ert ráð fyrir fjölgun íbúa á árinu.
Ásgerður Halldórsdóttir (sign)
Breytingartillaga - Nesið okkar
Lagt er til að bætt verði við liðnum Nesið okkar undir fjárfestingar A-hluta fyrirtækja. Upphæðin skal vera 20.000.000 og breytingin verður fjármögnuð með nýtingu af hluta af tekjum sem koma af sölu á Ráðagerði.
Greinargerð
Árið 2018 fór Seltjarnarnesbær í metnaðarfullt íbúasamráðsverkefni sem fékk heitið Nesið okkar. Í verkefninu gafst íbúum tækifæri á að senda inn hugmyndir að framkvæmdum til að bæta, fegra og þróa Nesið okkar. Íbúar kusu á miilli tillagna og bærin framkvæmdi eftir óskalista bæjarbúa. Almenn ánægja var með verkefnið og aukin skilningur varð á forgangsröðun fjármuna hjá sveitarfélaginu.
Árið 2019 var ákveðið að hafa verkefnið annað hvert ár og tvöfalda upphæðina til þess að lækka hlutfallslegan kostnað við umsýslu verkefnisins á móti því fjármagni sem færi í framkvæmdir. Tvö ár væru líka betri tími til að tryggja að búið væri að framkvæma allar hugmyndirnar hlutu framgang í verkefninu.
Árið 2020 fór verkefnið aldrei af stað og ennþá á eftir að klára að framkvæma þau verkefni sem íbúar kusu um 2018. Dæmi um ólokin verkefni eru að kaupa borð og stóla á Eiðistorg og að setja upp hleðslustöð á Seltjarnarnesi. Það er samt aðeins við framkvæmdarstjórn bæjarins að sakast en ekki verkefnið sjálft.
Árið 2021 gerir ráð fyrir taprekstri og eru fordæmalausir tímar uppi í samfélaginu með metfjölda atvinnulausra og samdrætti í hagkerfinu vegna Covidfaraldursins. Í slíku ástandi er annars vegar mikilvægt að sveitarfélög ráðist í atvinnuskapandi verkefni og framkvæmdir og hins vegar mikilvægt að gefa bæjarbúum tækifæri til þess að forgangsraða þeim naumu fjármunum sem eru til skiptana. Það var alveg ljóst þegar gerð var óformleg könnun meðal íbúa fyrr í haust að yfirgnæfandi stuðningur var við að endurvekja verkefnið og eru íbúar tilbúnir með margar frábærar hugmyndir til að senda inn.
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Breytingartillagan var samþykkt samhljóða og vísar tillögunni til bæjarráðs á nýju ári til frekari útfærslu.
Breytingartillaga - Nesið okkar
Lagt er til að bætt verði við liðnum endurbætur á skólalóð Mýrarhúsaskóla undir fjárfestingar A-hluta fyrirtækja. Upphæðin skal vera 50.000.000 og breytingin verður fjármögnuð með nýtingu af hluta af tekjum sem koma af sölu á Ráðagerði.
Greinargerð
Skólalóð Mýrarhúsaskóla er að mestu leiti malbikað plan og er knattspyrnuvöllur og önnur tæki sem á henni eru komin vel til ára sinna.Áður var framboð af leiktækjum, körfuboltakörfum og fótboltavöllum talsvert meira en það er í dag og hefði maður haldið að í sveitarfélagi þar sem aðeins er einn grunnskóli væri hægt að bæta skólalóðina og halda henni við á milli ára. Seltirningar þekkja vel til nýlegra endurbóta á Grandaskóla en börn í Mýrarhúsaskóla ákveða oft að hittast þar frekar en í sveitarfélaginu sínu til að leika sér og fara í fótbolta. Á lóð Grandaskóla var skipt um allt undirlag, keypt voru ný leiktæki á alla lóðina, körfuboltavöllur með mjúku undirlagi var settur upp ásamt nýjum gervigrasvelli þar sem hægt er að spila á þremur völlum í einu. Við höfðum samband við Reykjavíkurborg og fengum þær upplýsingar að sú framkvæmd hafi kostað á bilinu 150-200 milljónir. Tillagan okkar gerir ráð fyrir að ráðast í hugmyndavinnu með nemendum grunnskólans og kennurum um hvernig skólalóðin ætti að líta út. Hægt væri að hefja endurnýjun að hluta á næsta ári og klára svo almennilega enduruppbyggingu á næstu árum.
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Breytingartillagan var felld með 5 atkvæðum gegn 2.
Breytingartillaga á fjárhagsáætlun - Selið
Lagt er til að liður 06-310-1110 sem í tillögunni er 15.823.149 verði 33.226.813 líkt og hann var árið 2020. Breytingin er fjármögnuð með nýtingu af hluta af tekjum sem koma af sölu á Ráðagerði.
Greinargerð
Undirrituð leggja til að fallið verði frá 52% niðurskurði á launalið félgsmiðstöðvarinnar Selsins. Selið er eina stofnun sveitarfélagsins sem lagt er til að skera niður um tugi prósenta og hafa engin rök verið lögð fram fyrir niðurskurðinum eða greiningarvinnu á langtímaáhrifum hans. Það ber að nefna að sömu upphæð mætti spara með 0,4% hagræðingarkröfu á stofnanir bæjarins.
Á meðan flest sveitarfélög í kringum okkur eru að gefa í til að halda betur utan um unglingahópinn sinn og byggja upp jákvæða félagslega virkni í kjölfarið af Covidfaraldrinum ætlar Seltjarnarnesbær að skera niður starfsemina og fagstarfið sérstaklega. Fjöldi starfsmanna verður með þessu langt undir þeim viðmiðum sem önnur sveitarfélög fara eftir í skólum af sömu stærðargráðu og Valhúsaskóla. Við það má svo bæta að önnur sveitarfélög hafa öll starfandi æskulýðsfulltrúa eða aðra miðlæga starfsemi sem styður við fagstarfið félagsmiðstöðva og frístundaheimilin sérstaklega en það höfum við ekki heldur.
WHO hefur lagt mikla áherslu á að gripið verði til ráðstafana til að koma til móts við ungt fólk í kjölfar Covid 19 og að með því að leggja fram meira fjármagn í þennan málaflokk megi koma í veg fyrir mjög dýrar afleiðingar seinna meir. Brottfall úr skólum, fíkniefnaneysla, geðraskanir og vanvirkni gætu aukist mikið sem afleiðing af Covid 19 í einhver ár. Við þurfum að læra af hruninu 2008 þar sem afleiðingar komu fram ekki á meðan á ástandinu stóð heldur eftir á. Því gæti orðið mjög dýrkeypt fyrir samfélag eins og Seltjarnarnes að missa niður afbragðs starf með unga fólkinu okkar. Það er alltaf dýrara að byrja aftur upp á nýtt heldur en að viðhalda því sem gert hefur verið.
Við bendum á að
-
Selið þarf ekki nema að taka þátt í að bjarga einum unglingi á fimm ára fresti til þess borga sig til baka með sparnaði í félagslega kerfinu. Og það er fyrir utan þau jákvæðu áhrif sem félagsmiðstöðin hefur á unglingahópinn í heild sinni með starfi sínu og samstarfi við grunnskólann.
-
Selið hefur verið stór hluti af þeirri jákvæðu upplifun sem það að alast upp á Nesinu er. Selið hefur haldið utan um nemendaráð, ungmennaráð, félagslíf skólans, leikritin, klúbba, námskeið og margt fleira.
-
Selið hefur verið einn af lykilaðilunum í samstarfi við foreldra, skólann og íþróttafélagið við að draga úr unglingadrykkju og byggja upp félagslega sterkan einstaklinga sem hafa oftar en ekki láta til sín taka í nemendaráðum, leikritum, nefndum og ráðum innan framhaldsskólanna eftir útskrift.
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Breytingartillagan var felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Bókun bæjarstjóra varðandi Selið.
Það er með ólíkindum að Samfylkingin komi með staðhæfingar á Facebook og hér í bókun á bæjarstjórnarfundi sem eiga ekki við rök að styðjast. Samfylkingin reynir aftur og aftur í þessu máli varðandi Selið að slá ryki í augun á fólki, með því að bera saman appelsínur og epli. Það liggur fyrir að búið er að ráða nýjan forstöðumann fyrir Selið sem reyndar bæjarfulltrúi Guðmundur Ari gegndi áður en hann sagði starfi sínu lausu, til að hverfa til annarra starfa. Við verðum að gefa nýju og öflugu fólki tækifæri til þess að starfa, jafnvel með breyttum áherslum sem unnar eru með næsta yfirmanni. Ég vísa því alfarið á bug að hér sé um niðurskurð að ræða, kynnt hefur verið öflugt starf á þessum erfiðu tímum þar sem samkomutakmarkanir hafa verið meira eða minna allt árið.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri.(sign)
Breytingartillaga - Upplýsingatækni í Grunnskóla Seltjarnarness
Lagt er til að breyta lið 04-213-2813 Hugbúnaður, tölvur úr 300.000 í 3.000.000 og lið 04-010-4992 Skólnefnd v./ skólaþróunar og fleira úr 700.000 í 1.700.000. Breytingin er fjármögnuð með nýtingu af hluta af tekjum sem koma af sölu á Ráðagerði.
Greinargerð
Gífurlega hröð þróun hefur verið á þróun í upplýsingatækni grunnskóla á síðustu árum. Þessi þróun hefur kallað á þjálfun kennara, kaup á búnaði og þróunarverkefni innan skólanna við að innleiða nýjar kennsluaðferðir. Í sveitarfélögunum í kringum okkur er verið að sækja fram með skýrri stefnu, kaup á búnaði og fjármagni í þjálfun starfsfólks og þróunarverkefni. Í haust var lögð niður staða deildarstjóra upplýsingatækni við grunnskólann og fjármagnið tekið út úr fjárhagsáætlun. Mikilvægt er að þrátt fyrir að ekki sé starfandi 100% starfsmaður um þessar mundir að fjármagn sé sett í kaup á tækjum, þjálfun starfsfólks og innleiðingarverkefni. Skólastjóri og starfsfólk skólans hefur óskað eftir auknu fjármagni í þennan málaflokk og er sú krafa eðlileg og hógvær í ljósi þróunarinnar og þess sem er í gangi í sveitarfélögunum í kringum okkur. Mikilvægt er að þessu fjármagni sé bætt við fjárhagsáætlun skólans og að fagfólkið okkar fái svigrúm til að meta hvernig best er að ráðstafa því. Það er ekki nóg að kaupa bara tæki, skólinn þarf að hafa svigrúm til að meta hvaða tæki henta í hvaða verkefni, þjálfa upp starfsfólk og styðja við þróunarverkefni.
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Breytingartillagan var felld með 4 atkvæðum gegn 2 og einn sat hjá.
Til máls tóku: ÁH, GAS, SB, MÖG, BTÁ, KPJ, SEJ
Fjárhagsáætlun 2021 var samþykkt með fimm atkvæðum og tveir á móti.
Bókun Samfylkingar:
Rekstur Seltjarnarnesbæjar hefur á síðustu árum verið ósjálfbær. Tekjur hafa ekki dugað fyrir útgjöldum sem hefur leitt til hallareksturs og lántöku. Í stað þess að vera sveitarfélag sem getur lagt til hliðar og safnað fyrir framkvæmdum hefur Seltjarnarnesbær þurft að fjármagna framkvæmdir á lánum og rekstur á yfirdrætti. Seltjarnarnesbær sem eitt sinn var þekktur fyrir trausta fjármálastjórn og góðan rekstur er nú þekktur fyrir taprekstur, niðurskurð og lánasöfnun. Í fjárhagsáætlun sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir tapi A sjóðs upp á 227 milljónir, tapi A og B hluta upp á 136 milljónir og að skuldahlutfall sveitarfélagsins verði komið upp í 143% árið 2024.
En hvað veldur?
Frá okkur séð er ekki bruðlað með fjármuni á starfsstöðum bæjarins og ekki hefur heldur verið mikil uppbygging á innviðum. Framkvæmdir og fjárfestingar í sveitafélaginu hafa einhverjar verið og verða áfram, en það er í samræmi við önnur sveitarfélög og hluti af skyldu okkar.
Það sem hefur breyst er að auknar kröfur eru nú lagðar á sveitarfélög um þjónustu við íbúa og sveitarfélagið seldi sína síðustu jörð þegar Hrólfskálamelurinn var seldur. Fram að því höfðu framkvæmdir og hallarekstur verið fjármagnaður með sölu á lóðum og uppbyggingu hverfa en nú eru þær ekki lengur til staðar.
En hvað getum við gert?
Það er hlutverk okkar sem sitjum í bæjarstjórn að lesa í stöðuna og bregðast við henni. Núverandi tekju- og útgjaldamódel sveitarfélagsins er ekki sjálfbært og áframhaldandi niðurskurður og gjaldskrárhækkanir njóta ekki stuðnings íbúa. Við fjárhagsáætlun ársins 2020 lagði minnihlutinn til að við myndum aðlaga tekjumódelið okkar til að ná utan um þá þjónustu sem við erum að veita og innheimta sömu útsvarsprósentu og Hafnarfjörður, Kópavogur og Mosfellsbær. Ef meirihlutinn hefði samþykkt tillögu okkar um að innheimta þessa sömu útsvarsprósentu og flokkssystkini innheimta í öðrum sveitarfélögum þá væri ekki halli á rekstri A og B hluta árið 2020 og við hefðum samt getað sleppt því að skera niður 52% af starfsfólki félagsmiðstöðvarinnar, minnkað biðlista í tónlistarskólann og sleppt því að ráðast í 40% gjaldskrárhækkanir á skólamat leik- og grunnskólabarna.
Við vinnu fjárhagsáætlunar 2021 hafa fulltrúar Samfylkingar fært rök fyrir því að sjálfbær útsvarsprósenta sé 14.48% líkt og hún er í nágrannasveitarfélögum okkar en meirihlutinn hafnar því og leggur frekar fram áætlun sem gerir hreinlega ráð fyrir taprekstri. Þessi breyting á útsvarsprósentunni myndi þýða að íbúar myndu greiða 700 krónur aukalega af hverjum 100.000 krónum sem þeir þéna. Það er öll breytingin en hún myndi hafa það í för með sér að sveitarfélagið myndi geta haldið úti sama þjónustustigi og hætt að þurfa fjármagna sig á lánum með tilheyrandi vaxtakostnaði.
Við í minnihlutanum lögðum einnig til tillögur um að falla frá niðurskurði í Selinu, að efla upplýsingatækni í grunnskólanum, ráðast í löngu tímabærar endurbætur á skólalóð grunnskólans og að endurvekja íbúasamráðsverkefnið Nesið okkar. Allar tillögur minnihlutans voru fjármagnaðar með sölu á Ráðagerði og hefði því verið hægt að framkvæma þær allar og loka samt hallanum á rekstri sveitarfélagsins með útsvarsbreytingunni.
Nesið okkar var eina tillagan sem var samþykkt en aðrar ýmist felldar eða vísað í áframhaldandi vinnu í nefndum og ætlar meirihlutinn að halda sig við metnaðarlausa fjárhagsáætlun sem samt gerir ráð fyrir samtals yfir 136 milljón króna taprekstri. Helstu vopn meirihlutans í umræðunni um fjárhagsáætlunina er að ekki megi hrófla við útsvarinu.
Það er kaldhæðnislegt að það vopn er helst að bíta í meirihlutann sem hefur engar lausnir til að snúa við rekstri sveitarfélagsins í sátt við íbúa.
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga (sign)
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga (sign)
Bókun Bæjarfulltrúa Bjarna Torfa Álfþórssonar:
Það er með nokkrum trega að ég samþykki framlagða fjárhagsáætlun v/2021. Ég er þeirrar skoðunar að rétt hefði verið að hækka útsvar núna til að mæta þörf og styrkja getu okkar til að takast á við þau verkefni sem nú blasa við. Við hækkuðum útsvar í lok árs 2010, þvert á loforð um annað, unnum vel úr því með góðri þjónustu við íbúa og styrktum stöðu bæjarsjóðs, sem síðan gerði okkur kleift að lækka aftur útsvarið.
Við þekkjum öll stöðu bæjarsjóðs og reksturinn síðustu ár. Ástæður hallareksturs eru þekktar og ekki er um að kenna slælegri stjórn, heldur frekar öðrum utanaðkomandi aðstæðum.
Við lofuðum sannarlega að skattar yrðu ekki hækkaðir á þessu kjörtímabili, en við lofuðum líka traustri fjármálastjórn, nýjum leikskóla og að lífsgæði íbúa væru leiðarljós okkar, svo eitthvað sé nefnt.
Það eru mörg verkefni sem bíða okkar á næstu misserum og stöðugt bætist í íbúaflóru bæjarins, en því fylgja líka nýjar áskoranir. Nú eru t.a.m. yfir 50 mál á borði starfsmanna barnaverndar og ljóst að þar eru mörg vandamál sem ekki eru sýnileg öllum.
Bjarni Torfi Álfþórsson - Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks Seltirninga (sign)
Bókun bæjarstjóra:
Enn og aftur talar Samfylkingin um uppsafnaðan halla frá fyrri árum á sama tíma og þau útgjöld sem sköpuðu hallann hafi verið samþykkt í bæjarstjórn eins og framlagið til Lífeyrissjóðsins Brú. Það er eðlilegt í þessu rekstrarumhverfi þar sem stefnan hefur verið að standa vörð um grunnþjónustu og stöðugildi bæjarins að gera megi ráð fyrir að núverandi rekstrarár stefni í hallarekstur m.a. út af COVID19, tekjutapi og umframkostnaði. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa nú flest öll skilað fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 þar sem niðurstaðan er neikvæð. Samt á þessum erfiðu tímum telur Samfylkingin sig hafa töfralausn á rekstri bæjarins með því að hækka skatta á fólk. Sú umræða Samfylkingarinnar að leggja aðeins til skattahækkanir ár eftir ár sýnir úrræðaleysi þeirra, á sama tíma og þau tala um að sýna ábyrgð í rekstri og leita leiða til þess að skapa svigrúm til að efla þjónustu sveitarfélagsins.
Eins og frumvarpið ber vitni um stendur hvorki til að fara í skattahækkanir né harðan niðurskurð.
Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðureiknings verði neikvæður um 136 m.kr. Fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar er sterk og skuldir langt undir viðmiðunarmörkum sveitarstjórnarlaga. Skuldir bæjarins hafa aukist óverulega vegna byggingar hjúkrunarheimilis og stækkunar íþróttamiðstöðvar.
Gert er ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli útsvars 13,70%, sem er það lægsta sem þekkist meðal stærri sveitarfélaga landsins. Í forsendum fjárhagsáætlunarinnar er gert ráð fyrir að þjónusta við bæjarbúa verði áfram eins og best verður á kosið, að ekki verði dregið úr grunnþjónustu vegna samdráttar tekna og að álögur á íbúa verði haldið eins lágum og kostur er. Jafnframt verði gætt ítrasta aðhalds í rekstri bæjarins.
Þessi fjárhagsáætlun gerir ekki ráð fyrir kyrrstöðu, niðurskurði eða þjónustuskerðingum við íbúa bæjarins. Tekið skal fram að þegar tillagan er rýnd og borin saman við rekstur liðinna ára sést að tekjur eru ekki ofáætlaðar og fjárútlát miðast við þá grunnþjónustu sem á að standa vörð um.
Bæjarfélagið er rekið með fyrsta flokks þjónustu. Sveitarfélagið hefur síðastliðin ár staðið í miklum framkvæmdum. Tekið skal fram að rekstrarreikningur ársins 2019 var jákvæður. Með tilkomu bóluefnis og viðspyrnu þjóðfélagsins með aðgerðum ríkisstjórnarinnar, trúi ég því að rekstur næsta árs verði okkur hagfeldur.
Ásgerður Halldórsdóttir (sign).
Bókun forseta bæjarstjórnar:
Bókun vegna tillögu um að hækka útsvar úr 13,70% í 14,48%
Áskoranir í rekstri bæjarins snúast ekki um útsvarstekjur sem Samfylkingin vill hækka úr 13,7% í 14,48%, eða um 5,7%. Í nýútkominni Árbók sveitarfélaga sést að í fyrra greiddu Seltirningar 4% hærra útsvar á mann en Kópavogsbúar, liðlega 9% hærra en Hafnfirðingar og tæp 12% hærra en Mosfellingar. Aukinheldur greiddum við 6,6% hærra útsvar á mann en Reykvíkingar þó það sé ekki samanburður hér en þar er álagningarstuðull í hámarki undir forystu Samfylkingarinnar.
Nú hafa laun hækkað um rúmlega 7% á síðastliðnum 12 mánuðum. Hver Seltirningur greiddi að meðaltali 734 þús í útsvar á síðasta ári og má því gera ráð fyrir að sú tala verði komin í 785 þús í lok þess árs vegna mikilla launahækkana. Sambýlisfólk greiðir þá 1.570.000 krónur.
Tillaga Samfylkingar gengur út á að sambýlisfólk á Seltjarnarnesi borgi um 90.000 krónur meira í útsvar á næsta ári. Það er einkennileg nálgun í mesta samdrætti lýðveldissögunnar og með hreinum ólíkindum að sú hugmynd sé viðruð hér og nú.
Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar (sign)
Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2022-2024.
Forseti gaf bæjarstjóra orðið og fór bæjarstjóri yfir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir árin 2022-2024.
Fjárhagsáætlun til 3ja ára fyrir árin 2022-2024 var samþykkt með fimm atkvæðum og tveir á móti.
Til máls tóku: ÁH, SB, KPJ.
Bókun Samfylkingar Seltirninga vegna þriggja ára áætlunar 2022-2024.
Miðað við þriggja ára áætlun er gert ráð fyrir tapi á A sjóð upp á samtals 192 milljónir þessi þrjú ár. Það bætist við tap A sjóðs áranna 2019-2021 upp á 580 milljónir.
Þetta eru stórar fjárhæðir fyrir lítið sveitafélag og ljóst að rekstur A sjóðs er ekki sjálfbær. Í þessari áætlun er ekkert sem bendir til að núverandi meirihluti ætli að finna leiðir til að snúa rekstrinum við.
Við fögnum því að í fjárfestingaráætlun er gert ráð fyrir að byggður verði nýr leikskóli og gert ráð fyrir 1,5 milljarða fjárfestingu vegna þess. Við óttumst þó að róðurinn verði þungur og skuldahlutfall bæjarins verði orðið óviðráðanlegt þennan tíma - en samkvæmt áætlun bæjarins er gert ráð fyrir að það verði komið í 143% árið 2024.
Þriggja ára áætlun á að lýsa áætlun um uppbyggingu og stöðu bæjarins til lengri tíma. Það er í raun ekki tekin nein afstaða í þeirra áætlun til reksturs og afkomu A sjóðs önnur er algjör uppgjöf fyrir verkefninu.
Við teljum óábyrgt að samþykkja áætlunina eins og hún lítur út og samþykkjum hana ekki.
Guðmundur Ari og Sigurþóra
-
-
Fundargerð 109. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Eftirfarandi liðir í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 109 voru borin upp til staðfestingar:
1. Mál nr. 2020090034
Heiti máls: Tjarnarstígur 10 – umsókn um breytingu á deiliskipulagi.
Lýsing: Umsókn um breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og uppdráttur að breytingu á deiliskipulagi, dags. 30.11.2020, lagður fram.
Afgreiðsla: Nefndin samþykkir að tillaga, dags. 30.11.2020 verði grenndarkynnt, skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, fyrir lóðarhöfum á Tjarnarstíg 6, 8, 12 og 14. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
3. Mál nr. 2020100154
Heiti máls: Verslun og þjónusta í Ráðagerði.
Lýsing: Tillaga til kynningar á vinnslustigi um breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, dags. 26. nóvember 2020.
Afgreiðsla: Tekin er fyrir tillaga á vinnslustigi um breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar vegna verslunar og þjónustu í Ráðagerði. Tillaga að lýsingu hefur verið kynnt á vinnslustigi og hún fullunnin með hliðsjón af ábendingum sem fram komu. Skipulagsnefnd samþykkir að auglýsa tillöguna í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og vísar tillögunni til staðfestingar bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 10 liðum.
Til máls tóku: GAS, ÁH, KPJ, BTÁ, SEJ, MÖG, ÁH
-
Fundargerð 310. fundar Skólanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: SEJ
-
Fundargerð 424. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerð 303. fundar Umhverfisnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerðir 386. og 387. fundar Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Fundargerðirnar lagðar fram.
-
Fundargerðir 514. og 515. fundar stjórnar SSH.
Fundargerðirnar lagðar fram.
-
Fundargerðir 437., 438. og 439. fundar stjórnar SORPU bs.
Fundargerðirnar lagðar fram.
-
Fundargerð 330. fundar stjórnar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerð 891. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerðir 189 til 212. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Fundargerðirnar lagðar fram.
Til máls tóku: ÁH
-
Tillögur og erindi:
A) Lögð var fram áætlun bæjarstjórnarfunda fyrir árið 2021.
Bæjarstjórnarfundir á árinu 2021 verða á eftirföldum dögum:
13. janúar, 10. og 24. febrúar, 10. og 24. mars, 14. og 28. apríl, 12. og 26. maí, 9. og 23. júní, 14. júlí, 18. ágúst, 8. og 22. september, 13. og 27. október, 10. og 24. nóvember og 15. desember.
B) Málsnúmer 2020110208. Gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. lögð fram og samþykkt samhljóða
C) Umsögn sveitarstjórnar um leyfi fyrir brennu á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi, þann 31/12 2020.
Bæjarstjórn gefur ekki jákvætt leyfi fyrir brennu 31.12.2020 á Valhúsarhæð vegna reglna um takmörkun á samkomuhaldi sem kynnt var í gær 8. desember 2020 um hversu margir geta komið saman.
Samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl.18:58