Fara í efni

Bæjarstjórn

597. fundur 23. júní 2004

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Nökkvi Gunnarsson, Árni Einarsson, Bjarni Torfi Álfþórsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð síðasta fundar staðfest.

1.           Lögð var fram fundargerð 345. fundar Fjárhags- og launanefndar  Seltjarnarness, dagsett 10. júní 2004 og var hún í 13 liðum.

Til máls tók: Sunneva Hafsteinsdóttir.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

2.           Lögð var fram fundargerð 146. (41.) fundar Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 7. júní 2004 og var hún í 12 liðum.

Til máls tóku: Bjarni Torfi Álfþórsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Inga Hersteinsdóttir, Ásgerður Halldórsdóttir og Árni Einarsson.

Bæjarfulltrúar Neslista leggja fram eftirfarandi bókun vegna liðar 7. í 146. (41.) fundargerðar skólanefndar frá 7. júní 2004:

“Sem hluta af lögbundnu sjálfsmati skóla var viðhorfakönnun lögð fyrir foreldra barna í Valhúsaskóla og kennara og aðra starfsmenn skólans. Almenn ánægja virðist vera með skólastarfið bæði hjá foreldrum og starfsmönnum. Þó eru nokkrir þættir sem huga verður sérstaklega að. Skýrt kemur fram að mikill trúnaðarbrestur hefur orðið milli skólanefndar/skólayfirvalda, starfsmanna skólans og foreldra. Um 65% starfsmanna telja að skólanefnd sinni skólunum ekki af metnaði og 45% foreldra telja að samstarf við skólayfirvöld sé lakara eða verra en fyrir 2-3 árum. Í þessu felst alvarleg áminning fyrir skólayfirvöld og nauðsynlegt að skólanefnd bregðist strax við og bæti úr því sem hér hefur farið á verri veg.”

Sunneva Hafsteinsdóttir         Árni Einarsson        Nökkvi Gunnarsson

            (sign)                              (sign)                              (sign)

 

Fulltrúar D-listans leggja fram eftirfarandi bókun:

“Meirihluti Sjálfstæðismanna fagnar þessari könnun og ábendingum sem þar koma fram. Í viðhorfskönnunum foreldra og starfsmanna Valhúsaskóla sem teknar voru á viðkvæmu augnabliki í starfi skólans bera með sér að bæði foreldrar og skólafólk sjá margt jákvætt í starfi skólans sem lengi hafa þótt í fremstu röð. Áhyggjur og álitaefni ber ætíð að taka alvarlega og unnið verður með alla þá þætti sem nefndir eru og skólunum áfram sköpuð bestu skilyrði fyrir gott skólastarf.”

Jónmundur Guðmarsson,            Bjarni Torfi Álfþórsson

            (sign)                                        (sign)

Ásgerður Halldórsdóttir               Inga Hersteinsdóttir

            (sign)                                        (sign)

 

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

3.           Lögð var fram fundargerð 41. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 10. júní 2004 og var hún í 7 liðum.

Til máls tóku: Inga Hersteinsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

4.           Lögð var fram fundargerð 269. fundar stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 7. júní 2004 og var hún í 5 liðum.                 

Til máls tóku:  Árni Einarsson, Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

5.           Lögð var fram fundargerð 41. fundar stjórnar STRÆTÓ bs. , dagsett 4. júní 2004 og var hún í 2 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

6.           Erindi:

a)     Lagt var fram bréf framkvæmdastjóra Félagsmálaráðs, dagsett 15. júní 2004, vegna Jafnréttisáætlunar Seltjarnarnesbæjar. Einnig var lögð fram fundargerð undirnefndar um jafnréttismál dagsett 12. maí 2004 og var hún í 3 liðum. Er hún undir 4. lið 299. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness sem lögð var fyrir 596. fund bæjarstjórnar í lið 4.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Árni Einarsson.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða núverandi jafnréttisáætlun.

Fundargerð 299. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

b)    Lagt var fram bréf Ístaks h.f. dagsett 2. júní 2004 varðandi áhuga þeirra á þátttöku í samkeppni um byggingu sameiginlegs hjúkrunarheimilis aldraðra fyrir Seltjarnarnesbæ og Reykjavíkurborg.

Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.

Bæjarstjóra falið að svara erindinu í ljósi umræðna.

 

c)     Fulltrúar D-lista lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Tillaga:

“Lagt er til að bæjarstjórn feli starfshópi að gera tillögur um hvernig stuðla megi að auknu öryggi íbúanna gagnvart innbrotum og skemmdarverkum í bænum.  Hópurinn kanni m.a. kosti þess að koma á fót skipulagðri nágrannavörslu á Seltjarnarnesi, hvernig unnt sé að auka vitund íbúa og geri tillögur um mögulega eflingu almennrar löggæslu á Seltjarnarnesi.  Leitað verði eftir samstarfi við lögregluyfirvöld og dóms- og kirkjumálaráðuneyti um mótun tillagna.   Starfshópurinn verði skipaður þremur einstaklingum, tveimur tilnefndum af meirihluta og einum tilnefndum af minnihluta.  Framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs verði starfsmaður  hópsins og stefnt skal að því að tillögur liggi fyrir hinn 15.01.05.”

Greinargerð.

Innbrot og skemmdarverk hafa færst mjög í vöxt á Seltjarnarnesi á undanförnum árum.  Virðist þróunin hníga í sömu átt á höfuðborgarsvæðinu í heild og víðar.   Á síðastliðnum mánuðum hefur t.a.m. þrívegis verið brotist inn á bæjarskrifstofur Seltjarnarnesbæjar, tvívegis inn í Mýrarhúsaskóla, brotist inn í íþróttamiðstöðina, í tvö fyrirtæki og a.m.k. fimm heimili.  Fjárhagslegt tjón og ekki síður tilfinningalegt er í öllum tilfellum verulegt.  Mikilvægt er að bæjaryfirvöld gefi þessari óheillaþróun gaum og geri sitt til að vernda öryggi Seltirninga og standa vörð um eigur þeirra.   Frumkvæði sveitarfélaga í þessa veru og samtakamáttur íbúanna hafa gefið góða raun bæði hérlendis og víða erlendis. 

 

Jónmundur Guðmarsson               Ásgerður Halldórsdóttir

(sign.)                                       (sign.)

 

Inga Hersteinsdóttir                       Bjarni Torfi Álfþórsson

(sign.)                                       (sign.)

 

 

Fundi var slitið kl. 17:52  

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?