Íbúaþing um þjónustu við fatlað fólk á Seltjarnarnesi og framtíðarsýn í málefnum þess var haldið í Valhúsaskóla laugardaginn 11. nóvember sl. Þingið þykir hafa heppnast vel og var vel sótt en hátt í 50 manns tóku virkan þátt.
Aðdraganda íbúaþingsins má rekja til þess að bæjarstjórn Seltjarnarness skipaði á vormánuðum stýrihóp um stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks í bæjarfélaginu. Þingið var svo hugsað sem liður í því að safna upplýsingum og hugmyndum frá öllum hutaðeigandi hagsmunaaðilum til að gera þjónustuna sem markvissasta. Árni Einarsson og Bjarni Torfi Álfþórsson bæjarfulltrúar voru fundarstjórar og stýrðu umræðum í hópum.
Dagskrá þingsins var með hætti að í upphafi voru haldnar stuttar kynningar á þeirri þjónustu sem fötluðu fólki stendur nú þegar til boða auk þess sem kynnt voru helstu lög og reglur sem mæla fyrir um þjónustu við fatlað fólk almennt. Þátttakendum var í framhaldi skipt upp í umræðuhópa sem tóku fyrir mismunandi málefni bæði út frá börnum og fullorðnum. Viðfangsefnin voru þjónusta við fatlað fólk, þátttaka þess í samfélaginu og hvernig best sé að haga þjónustu og stuðla að virkni fatlaðra þegar horft er til framtíðar.
Umræðurnar voru líflegar og margar hugmyndir á lofti en hópstjórar gerðu í lokin grein fyrir starfi hvers hóps. Allar niðurstöður og tillögur voru skráðar niður og verða notaðar sem mikilvægt innlegg og vegvísir í áframhaldandi stefnumótunarvinnu stýrihópsins. Hans bíður nú að vinna drög að stefnumótun í málefnum fatlaðra á Seltjarnarnesi og leggja fyrir bæjarstjórn á vormánuðum 2018.
Öllum þátttakendum íbúaþingsins eru færðar bestu þakkir fyrir þeirra framlag.