Sigurganga nemenda í Valhúsaskóla í Skólahreysti er eftirtektarverð. Liðið er komið í tíu riðla úrslit og fer keppnin fram í beinni útsendingu frá Laugardalshöll á morgun, 22. apríl.
Sigurganga nemenda í Valhúsaskóla í Skólahreysti er eftirtektarverð. Liðið er komið í tíu riðla úrslit og fer keppnin fram í beinni útsendingu frá Laugardalshöll á morgun, 22. apríl. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Seltirningar eru hvattir til að mæta á pallana og hvetja sitt fólk áfram.
Morgunblaðið birti nýlega umfjöllun um afrek Valhúsaskóla í keppninni og fer sú umfjöllun hér á eftir með góðfúslegu leyfi blaðsins:
Valhúsaskóli kom sá og sigraði í sínum riðli sem innihélt skóla úr vesturhluta Reykjavíkur og af Seltjarnarnesi. Í Valhúsaskóla hefur alla tíð verið mikil hefð fyrir Skólahreysti og er jafnvel sérstakur Skólahreystisvaláfangi starfræktur í skólanum. Er þetta í þriðja skiptið sem skólinn kemst í úrslit og hefur skólinn úr sterkum og reynslumiklum leikmönnum að spila. Þau Markús Ingi Hauksson og Katrín Viktoría Hjartardóttir fara hraðaþrautina fyrir hönd skólans. Þau voru bæði varamenn í fyrra og eru þau því vel undirbúin undir að keppa sem aðalmenn. Markús æfir frjálsar íþróttir og á tvö Íslandsmet í boðhlaupi 15 ára. Katrín hefur æft fimleika í 10 ára og m.a. hlotið tilnefningu sem íþróttamaður æskunnar í Gróttu árið 2014 og árið 2013 var hún verðlaunuð af Seltjarnarnesbæ sem ungur og efnilegur íþróttamaður.
Hinn helmingur liðsins er skipaður þeim Kareni Hilmu Jónsdóttur sem tekur armbeygjur og hreystigreip og Bjarna Geir H. Halldórsson sem tekur upphífingar og dýfur. Þau eru bæði að keppa í annað sinn og hafa bæði æft fimleika og var Bjarni meðal annars í landsliði og úrvalshóp í áhaldafimleikum.
Metta Helgadóttir, þjálfari liðsins segir afar jákvæðan anda í skólanum fyrir keppninni enda styðji þetta litla samfélag vel við bakið á sínu fólki.
„Við erum svakalega glöð með árangurinn. Þau eru dugleg að æfa og fengu prógröm fyrir páska sem þau eru dugleg að fylgja eftir,“ segir Metta sem kveður reynsluna af keppninni í fyrra gefa liðinu aukin kraft.
„Við lentum reyndar í því að undankeppnin var á óheppilegum tíma því þau voru að koma úr þriggja daga skíðaferðalagi frá Dalvík,“ segir Metta sem kveður krakkana ekki hafa verið komna heim fyrr en um miðnætti kvöldið fyrir keppni. „Þau voru þreytt og búin að gera vel við sig svo þó svo að þau hafi staðið sig vel eiga þau mikið inni.“