Fara í efni

Skólamaturinn fær góða einkunn

Á vordögum var gerð úttekt á mötuneytum leik- og grunnskóla og niðurstöður hennar eru ánægjulegur vitnisburður fyrir tilboðið um skólamat á Seltjarnarnesi.

Jóhannes Már Gunnarsson með nemendum grunnskólaÁ vordögum var gerð úttekt á mötuneytum leik- og grunnskóla og niðurstöður hennar eru ánægjulegur vitnisburður fyrir tilboðið um skólamat á Seltjarnarnesi.  Óháður fagaðili hefur tekið starfsemina út frá árinu 2012 og fram kemur að hráefnisval, innkaup, eldamennska og framreiðsla hafa batnað með hverju ári. Ljóst er að það er unnið stöðugt og markvisst að því að bæta fæðuframboð í mötuneytum skólanna, bæði með tilliti til hollustu og gæða. 

Fram kemur að samsetning matseðla og framleiðsla er jafnan í samræmi við útgefin viðmið Embættis landlæknis, sem er til fyrirmyndar. Þess er sérstaklega getið að notkun mettaðrar fitu og sykurs er í algjöru lágmarki og kappkostað er við að velja hollar fæðutegundir í samræmi við ráðleggingar Embættis landlæknis.

Jóhannes Már Gunnarsson, yfirmatreiðslumeistari mötuneytis Grunnskóla Seltjarnarness, fær hrós fyrir að vera „mjög meðvitaður og metnaðarfullur fyrir hönd skjólstæðinga sinna“ og njóta nemendur í leik- og grunnskóla góðs af. Í mælingum Skólapúlsins, sem leggur spurningakannanir fyrir grunnskólanema, kemur fram að nemendur á Seltjarnarnesi borða talsvert meira af ávöxtum og grænmeti en jafnaldrar þeirra á landsvísu. Þetta styður vel við niðurstöður úttektarinnar á skólamötuneytinu þar sem áhersla hefur verið lögð á að auka framboðið af ávöxtum og grænmeti.

Úttektarskýrsluna er að finna í heild sinni á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar http://www.seltjarnarnes.is/static/files/frettir/fjarhagssvid/uttekt-a-skolamotuneyti-2017.pdf


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?