Fara í efni

Sigurgeir Sigurðsson

Sigurgeir Sigurðsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, varð bráðkvaddur á heimili sínu að morgni þriðjudagsins 3. október, 82 ára að aldri

Sigurgeir SigurðssonSigurgeir Sigurðsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, varð bráðkvaddur á heimili sínu að morgni þriðjudagsins 3. október, 82 ára að aldri.

Sigurgeir fæddist á Sauðárkróki 14. desember 1934 og ólst þar upp hjá foreldrum sínum, þeim Sigurði P. Jónssyni kaupmanni og Ingibjörgu Eiríksdóttur húsmóður, til 16 ára aldurs.  Þá flutti hann einn til Reykjavíkur til að hefja nám í Verzlunarskólanum.  Sigurgeir lauk þremur bekkjum en hætti til að freista gæfunnar þegar síldin kom.  Að síldarævintýrinu loknu hóf Sigurgeir störf hjá Varnarliðinu og starfaði á Keflavíkurflugvelli í tæp 9 ár.  Auk þess starfaði hann inn á milli í Landsbankanum og sem sölumaður hjá Ford-umboðinu Kr. Kristjánssyni.

Á Seltjarnarnesið  flutti Sigurgeir ásamt eiginkonu sinni Sigríði Gyðu Sigurðardóttur myndlistarkonu árið 1957 og var kjörinn í hreppsnefndina árið 1962.  Þremur árum síðar var hann orðinn sveitarstjóri og í framhaldi bæjarstjóri frá árinu 1974.  Sigurgeir var með lengstan starfsferil sem sveitar- og bæjarstjóri en hann sat í bæjarstjórn á Seltjarnarnesi í samtals 40 ár og lét af embætti árið 2002.

Sigurgeir var varaþingmaður Reyknesinga á árunum 1980-1981 og tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á þeim tíma.  Á starfsferlinum gegndi hann fjölmörgum trúnaðarstörfum og formennsku í ýmsum félögum og nefndum.  Hann var meðal annars í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í um 12 ára skeið og var formaður þess á árunum 1987-1990.

Sigurgeir var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum árið 2000 er hann hlaut riddarakross fyrir störf sín að sveitarstjórnarmálum.

Sigurgeir og Sigríður Gyða, eiginkona hans (13. desember 1934 – 29. nóvember 2002), eignuðust þrjú börn, Margréti Sigurgeirsdóttur, fædda 1956, Sigurð Inga Sigurgeirsson, fæddan 1958 og Þór Sigurgeirsson, fæddan 1967.  Fyrir átti Sigurgeir einn son, Hörð Sigurgeirsson, fæddan 1955.


Sigurgeir Sigurðsson ásant bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar sem tók við árið 2002.

Sigurgeir Sigurðsson ásamt bæjarstjórn 2002-2006

Á mynd talið frá vinstri: Sigurgeir Sigurðsson, Bjarni Torfi Álfþórsson, Inga Hersteinsdóttir, Ásgerður Halldórsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Hlega Brynleifsdóttir, Árni Einarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?