Seltjarnarnes er á meðal þeirra sveitarfélaga sem koma best út þegar fjárhagsstaða er borin saman samkvæmt nýrri greiningu Samtaka atvinnulífsins á fjárhagsstöðu 12 stærstu sveitarfélaganna og Morgunblaðið birtir meðfylgjandi frétt þar um: https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2018/05/09/reksturinn_betri_vid_laegri_skattheimtu/
Reksturinn betri við lægri skattheimtu
Þegar tólf stærstu sveitarfélög landsins eru borin saman út frá rekstrarmælikvörðum kemur í ljós að þau sem koma best út taka hlutfallslega minnst til sín í formi skattheimtu.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.
Akranes, Seltjarnarnes og Garðabær koma best út þegar fjárhagsstaða sveitarfélaganna er borin saman. Seltjarnarnes, Garðabær og Vestmannaeyjar innheimta hlutfallslega lægstu skattana af meðaltekjum íbúa sinna á sama tíma og Akureyri, Fjarðabyggð og Reykjavík taka hlutfallslega mest til sín.
Þá mælist ánægja íbúa með leik- og grunnskóla mest í þeim sveitarfélögum sem koma best út úr rekstrarsamanburðinum.