Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur ákveðið að nýta forkaupsrétt sinn við kaup á hinu sögufræga húsi Ráðagerði sem byggt var á árunum 1880-1885 og hefur verið í einkaeign í mörg ár. Ráðagerði er vestasta hús bæjarins, einstaklega fallegt og reisulegt tvílyft timburhús sem stendur á einum fallegasta stað Seltjarnarness. Saga Ráðagerðis er löng en það var skráð hjáleiga frá Nesi árið 1703 með litlum túnbletti þar sem fóðra mátti 2 kýr. Margir ábúendur hafa verið í Ráðagerði frá upphafi en árið 1997 keyptu núverandi eigendur húsið og endurgerðu það í upprunalega mynd sem þykir hafa tekist afar vel.
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri lítur á kaupin sem mikið tækifæri og í raun skyldu bæjarins að nýta sér ákvæði forkaupsréttarins. „Ég tel afar mikilvægt að bærinn geti hafi stjórn á því hvað verður í húsinu til framtíðar og án efa er einn af möguleikum bæjarins að nýta það í menningar- og/eða ferðatengda starfsemi“ segir Ásgerður. Hún segir jafnframt að mikil umræða hafi verið á meðal bæjarbúa um uppbyggingu á Vestursvæðinu síðustu misserin. Að kallað sé verið eftir aðgerðum í tengslum við ferðatengda þjónustu og því að betur sé hægt að njóta útiveru á svæðinu.
Í skýrslu hóps sem vann að stefnumörkun í ferðaþjónustu á Seltjarnarnesi kemur fram að bærinn leggi áherslu á að nátturuleg og menningarleg arfleið bæjarins verði varðveitt í ljósi þess að helsta aðdráttarfl hans sé að finna í náttúrunni, fuglalífi, menningu og sögu. „Með kaupum á Ráðagerði er stigið stórt skref í þessa átt enda hefur svæðið í kringum Gróttu hvað mest aðdráttarafl allra staða á Seltjarnarnesi.“ að sögn Ásgerðar.
María Björk Óskarsdóttir, sviðstjóri menningarsviðs segir að með kaupum á Ráðagerði opnist miklir möguleikar fyrir bæjarfélagið að nýta húsið og þá lóð sem því fylgir auk þess sem ráðrúm gefist til að hugmyndavinna og meta í hvaða tilgangi það geti best þjónað bæjarbúum og gestum. „Að mínu mati er húsið kjörið sem áningarstaður fyrir íbúa og ferðamenn til dæmis sem kaffihús, sögusafn og/eða móttöku- og fundarstaður. Að þar geti verið upplýsingaveita um Seltjarnarnes, náttúruna, umhverfið, fuglalífið, fornminjarnar, söguna og menningararfinn ásamt veitingu annarrar þjónustu til þeirra sem fara um svæðið. Bæjarstjórn á hins vegar alveg eftir að skilgreina og fara í stefnumótunarvinnu um notkun hússins og svæðisins í kringum það“ segir María.
Ennfremur sér hún fyrir að tilvalið sé að kalla eftir hugmyndum og samráði við bæjarbúa varðandi notkunina á húsinu til dæmis í gegnum rafrænt Seltjarnarnes. „Fá fram hvað íbúarnir sjálfir geta helst hugsað sér að verði á þessum einstaka og sögufræga stað.“ segir María Björk