Seltjarnarnesbær hlýtur hvatningarverðlaunin Orðsporið 2019, fyrir að vera það sveitarfélag sem skarar fram úr í að bæta starfsaðstæður og starfskjör leikskólakennara umfram kjarasamning. Orðsporið er veitt á Degi leikskólans, 6. febrúar ár hvert, þeim sem þykja hafa skarað framúr í að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og hafa unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Leikskólanum Brákarborg og tók Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstóri við þeim úr hendi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.
Skólamálanefnd Félags leikskólakennara gerði nýverið könnun meðal allra sveitarfélaga landsins þar sem spurt var um atriði á borð við aukinn undirbúningstíma, tölvukost, styttingu vinnuviku, rými barna og ýmis hlunnindi. Fram kom í niðurstöðum könnunarinnar að á Seltjarnarnesi hefur undirbúningstími leikskólakennara verið aukinn, tölvukostur er í góðu lagi, starfsfólki hefur verið fjölgað, föst viðbótargreiðsla er greidd mánaðarlega og leikskólakennarar njóta hlunninda á borð við samgöngustyrk, líkamsræktarstyrk, þeir fá frítt í sund og frítt bókasafnskort. Þá er unnið að styttingu vinnuvikunnar á Seltjarnarnesi. Þess má að auki geta að Seltjarnarnesbær hefur einnig veitt starfsfólki leikskólans stuðning til náms með starfi og að í vor útskrifast sjö starfsmenn skólans með meistaragráðu í leikskólakennarafræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, en sex þeirra hafa stundað þar nám með stuðningi bæjarins.
Í tilefni dagsins var mikið um að vera í Leikskóla Seltjarnarness. Verk leikskólabarna eru sýnileg gestum og gangandi víðsvegar um bæinn, á Eiðistorgi, Bókasafni Seltjarnarness, kaffihúsinu Örnu, í sundlauginni og vallarhúsinu við fótboltavöllinn. Hópur leikskólabarna heimsótti Hitaveitu Seltjarnarness og ýmislegt fleira var til gamans gert.
Orðsporið var nú veitt í sjöunda skipti, en haldið var upp á Dag leikskólans í tólfta sinn þetta árið. Sjötti febrúar er merkilegur dagur í íslenskri leikskólasögu því á þeim degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmið dagsins er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og beina athygli fólks að því faglega og metnaðarfulla starfi sem innt er af hendi í leikskólum landsins á degi hverjum.
Samstarfshóp um Dag leikskólans skipa Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli.
Lilja Alfreðsdóttir og Ásgerður Halldórsdóttir
Sonja Jónasdóttir verkefnastjóri, Margrét Gísladóttir
aðstoðarleikskólastjóri, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri,
Baldur Pálsson fræðslustjóri og Soffía Guðmundsdóttir leikskólastjóri
Haraldur Freyr Gíslason formaður Félags leikskólakennara,
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Soffía Guðmundsdóttir
leikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness