Seltjarnarnesbær fékk þann 23. desember sl. staðfestingu á vottuðu jafnlaunakerfi hjá Jafnréttisstofu og tók við viðurkenningu þess efnis nú í byrjun janúar. Með vottun frá faggiltum vottunaraðila iCert ehf. sem og heimild Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið, er staðfest að Seltjarnarnesbær uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Lögum samkvæmt bar fyrirtækjum og stofnunum með 250 eða fleiri starfsmenn skylda til að hafa öðlast vottun á jafnlaunakerfi fyrir 31. desember 2019. Seltjarnarnesbær er með fyrstu sveitarfélögum til að öðlast þessa vottun.
Samhliða vinnu við innleiðingu jafnlaunakerfisins aflaði Seltjarnarnesbær jafnlaunaúttektar frá PwC á Íslandi þar sem framkvæmd var nákvæm greining á stöðu launamála eftir kyni. Niðurstaða þeirrar úttektar var að óútskýrður kyndbundinn launamunur hjá Seltjarnarnesbæ mælist nú 1,1% konum í vil.
Með innleiðingu jafnlaunastaðalsins hefur Seltjarnarnesbær komið sér upp gæðastjórnunarkerfi sem á að tryggja jafnan rétt, jöfn laun og sömu réttindi og kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf óháð kyni. Ennfremur að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggi ávallt á málefnalegum sjónarmiðum og geti þannig fyrirbyggt beinan og óbeinan launamismunun kynjanna.
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri: „Ég fagna mjög þessum mikilvæga áfanga sem jafnlaunavottunin er. Mikil fagleg og krefjandi vinna hefur verið lögð í undirbúning og innleiðingu jafnlaunastaðalsins hér innan bæjarins á síðasta ári, þar sem allt kapp var lagt á að ljúka ferlinu á tilsettum tíma. Það var ánægjulegt að sjá að óútskýrður kynbundinn launamunur mældist í úttektinni einungis 1,1% konum í vil hjá Seltjarnarnesbæ. Vinnan er rétt að hefjast og markmiðið er að sjálfsögðu að eyða þessum mun alfarið. Til þess höfum við nú öll tæki og tól sem og skýrt ferli og markmið sem við munum fylgja í hvívetna á komandi árum“
Starfshópurinn sem stýrði innleiðingunni fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar var skipaður þeim Öldu Gunnarsdóttur, stjórnsýslu- og launafulltrúa, Hervöru Pálsdóttur, verkefnastjóra, Róberti Bernhard Gíslasyni, verkefnastjóra gæðakerfis og Stefáni Bjarnasyni, mannauðsstjóra.