Fara í efni

Seltjarnarnesbær hlýtur Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC

PwC hefur framkvæmt Jafnlaunaúttekt á launagögnum hjá Seltjarnarnesbæ fyrir launatímabilið febrúar 2016 og var niðurstaðan eftirfarandi: Grunnvinnulaun kvenna voru 2,7% hærri en grunnlaun karla og heildarlaun kvenna voru 0,9% hærri en heildarlaun karla.

PwC hefur framkvæmt Jafnlaunaúttekt á launagögnum hjá Seltjarnarnesbæ fyrir launatímabilið febrúar 2016 og var niðurstaðan eftirfarandi:

  • Grunnvinnulaun kvenna voru 2,7% hærri en grunnlaun karla.
  • Heildarlaun kvenna voru 0,9% hærri en heildarlaun karla.

PwC veitir fyrirtækjum og stofnunum Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC ef bæði launamunur grunnlauna og heildarlauna er undir 3,5% sem viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur.

Þorkell Guðmundsso, Hafsteinn Már Einarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir, Guðmundur Ari Sigurjónsson og Árni Einarsson

Meðfylgjandi mynd var tekin í morgun þegar fulltúrar frá PwC afhentu bæjarstjóra Seltjarnarness gullmerkið. Frá vinstri til hægri: Fulltrúar PwC þeir Þorkell Guðmundsson og Hafsteinn Már Einarsson, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og bæjarfulltrúarnir Sigrún Edda Jónsdóttir, Guðmundur Ari Sigurjónsson og Árni Einarsson.

Seltjarnarnesbær hlýtur því Gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC. Í tilkynningu frá PwC er þessi mæling sögð sú fyrsta sem þeir hafa framkvæmt meðal fyrirtækja og stofnana, þar sem laun kvenna mælast hærri en laun karla bæði í grunnlaunum og heildarlaunum.

Fulltrúar PwC segja að afar vel hafi tekist til við að ná utan um og útskýra launadreifingu í greiningunni á grundvelli þeirra fjölmörgu ólíkra breyta sem notaðar voru. Skýringargildi launadreifingar er sérlega hátt, eða 91% og því aðeins 9% launadreifingar sem er óútskýrt. Óvissa í túlkun niðurstaðna er því hverfandi.

Að sögn Ágerðar Halldórsdóttur bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar er það afar jákvætt fyrir fyrirtæki og stofnanir að hljóta gullmerkið. „Það sýnir staðfestu þeirra til að stuðla að jafnrétti og gerir þau að eftirsóknarverðari vinnustað. Launamunur hjá Seltjarnarnesbæ er mjög lágur og engar vísbendingar að um kerfisbundinn launamun sé að ræða. Seltjarnarnes er með lægsta launamun sem mælst hefur á heildarlaunum meðal opinberra stofnana og bæjarfélaga hjá PwC,og við erum afar stolt af þeim árangri,“ segir Ásgerður.

Um jafnlaunaúttekt PwC

Jafnlaunaúttekt PwC byggir á línulegri fjölbreytuaðhvarfsgreiningu. Sá launamunur sem situr eftir (óútskýrður launamunur) þegar búið er að taka tillit til áhrifa skilgreindra breyta á laun hjá Seltjarnarnesbæ, er flokkaður sem ígildi kynbundins launamunar.

Í jafnlaunaúttekt Seltjarnarnesbæjar voru eftirfarandi breytur notaðar til útskýringar og leiðréttingar á fyrirliggjandi launamuni á grunnlaunum;  aldur, starfsaldur, menntun, starfshópur (staða í skipuriti), staða gagnvart jafningjum og heildarvinnustundir.

Markmiðið var að kanna kynbundinn launamun hjá Seltjarnarnesbæ, þegar búið er að taka tillit til þeirra atriða sem talin eru hafa áhrif á laun.

Í hverju felst launamunurinn

Í jafnlaunagreiningu er verið að skoða áhrif fjölmargra atriða (breyta) á laun samtímis og því oft erfitt að benda á eitthvert eitt atriði sem skýringu á launamuni.

Ólík samsetning kynjanna m.t.t. ýmissa breyta sem tekið er tillit í greiningunni getur verið áhrifaþáttur til launamunar, s.s. lífaldur, starfsreynsla og menntun. Ennfremur er líklegt að mismunandi samsetning kynjanna í ólíkum starfshópum hafi þarna áhrif.

Tölfræðiaðferðin sem greiningin byggir á er fjölbreytu aðhvarfsgreining. Hún gengur út á þá hugsun í prinsippinu að allar breytur, þ.m.t. launin hegði sér með línulegum hætti.  Ólíkir kjarasamningar og sérákvæði innan ólíkra starfsstétta fylgja ekki endilega slíkum línulegum föllum. Í jafnlaunagreiningu Seltjarnarnesbæjar eru nokkrir starfshópar sem eru skipaðir fólki sem sinnir ólíkum störfum en bera sambærilega ábyrgð og teljast því jafnverð störf. Ólíkur vinnutími og séráherslur kjarasamninga á milli þessara hópa geta þannig skapað örlítinn launamun.

Til samans getur þetta skapað þann launamun sem mælist í grunnlaunum hjá Seltjarnarnesbæ.

 



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?