Í byrjun maí undirritaði bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásgerður Halldórsdóttir, nýjan samning við Reiti vegna leigu á húsnæði Bókasafns Seltjarnarness á Eiðistorgi og tekur hann við af núgildandi samningi sem gilti til apríl 2018. Nýi samningurinn gildir í fimmtán ár eða til ársins 2032 og svipar að mörgu leyti til hins fyrra. Umsamið leiguverð helst óbreytt og fylgir vísitölu neysluverðs. Í samningnum er kveðið á um að Reitir taki að sér endurbætur á húsnæðinu innandyra sem felur m.a. í sér endurnýjun gólfefna og lagfæringa á lofti.
Þýðingarmesta framkvæmdin felst þó í aðgreiningu á rýmum Bókasafnsins og Hagkaupa, en lokað verður á milli hæðanna með berandi lofti til að takmarka hljóðleka sem berst frá Hagkaupum upp í Bókasafnið. Framkvæmdin felur í sér að sett verður upp hurð á jarðhæðinni þar sem gengið verður upp í safnið.
Breytingarnar krefjast mikils rasks á starfsemi safnsins og því verður það lokað frá 26. júní til 8. ágúst.
Myndin var tekin við undirritun samningsins en þar eru Soffía Karlsdóttir, sviðsstjóri menningar- og samskiptasviðs, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Inga Rut Jónsdóttir viðskiptastjóri hjá Reitum.