Fara í efni

Seltjarnarnesbær boðar stórfellda lækkun leikskólagjalda

Frá og með 1. janúar 2016 lækka leikskólagjöld á Seltjarnarnesi um 25% og verða þar með þau lægstu á landinu

Frá og með 1. janúar 2016 lækka leikskólagjöld á Seltjarnarnesi um 25% og verða þar með þau lægstu á landinu.

Seltjarnarnesbær hefur gefið út fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 og næstu þrjú ár þar á eftir og var hún var lögð fram til fyrri umræðu í gær. Þar er gert ráð fyrir að tekjur bæjarfélagsins verði tæpir 2,5 milljarðar króna og rekstrarafgangur verði 16 milljónir króna.
Lækkun leikskólagjalda um 25% frá 1. janúar er ætlað að koma til móts við barnafjölskyldur í bæjarfélaginu. Tómstundastyrkir með hverju barni 6 – 18 ára verða kr. 50.000,- og niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum, sem nú nema kr. 75.000,- verða einnig hækkaðar frá 1. janúar nk.

Álagning fasteignagjalda í A-flokki verður 0,20% af matsverði íbúðarhúsnæðis og lóðar og álagningarprósenta útsvars verður langt undir hámarki eða 13,70%, en hámarkið er 14,52%.

Helstu framkvæmdir á næsta ári felast í byggingu 40 rýma hjúkrunarheimilis. Einnig stendur til að endurnýja gervigrasið á knattspyrnuvelli Íþróttafélagsins Gróttu ásamt því að sinna öðrum almennum viðhaldsframkvæmdum.

Skuldahlutfall er komið undir 50% og fer lækkandi á hverju ári.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?