Fara í efni

Seltirningar ánægðastir landsmanna samkvæmt Gallup

Á Seltjarnarnesi eru 85% íbúa ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið,  samkvæmt árlegri þjónustukönnun sem Gallup gerir meðal sveitarfélaga landsins.

Bollasteinn - Ólöf NordalSeltirningar ánægðastir landsmanna

Á Seltjarnarnesi eru 85% íbúa ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið,  samkvæmt árlegri þjónustukönnun sem Gallup gerir meðal sveitarfélaga landsins. Þjónusta Seltjarnarness á heildina litið út frá reynslu og áliti íbúa nýtur verðskuldaðrar viðurkenningar, en Seltjarnarnesbær fær þar hæstu einkunn af þeim nítján sveitarfélögum sem borin eru saman. Á heildina litið er Seltjarnarnesbær oftast í efsta sæti meðal þessara stærstu bæjarfélaga landsins eða í  helmingi spurninganna sem lagðar voru fyrir viðhorfahópinn. Þessi jákvæða niðurstaða undirstrikar jákvætt viðhorf bæjarbúa til samfélagsþjónustunnar og er starfsfólki og stjórnendum bæjarins hvatning til að halda áfram á sömu braut.

Ánægja barna- og fjölskyldufólks eykst

Bærinn fær hæstu einkunn meðal þeirra nítján bæjarfélaga landsins, sem könnunin nær til, þegar kemur að þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarféalginu. Það sama er upp á teningnum þegar spurt er annars vegar um viðhorf bæjarbúa til þjónustu grunnskóla bæjarins og hins vegar um þjónustu við leikskólann. Ánægjan með leikskólann fer sívaxandi og eru 90% aðspurðra ánægðir með hann. Seltjarnarnesbær hefur lagt áherslu á að vera leiðandi í skóla-, æskulýðs- og íþróttastarfi á landsvísu. Það hefur lagt metnað í jöfn tækifæri fyrir alla og samhliða stuðlað að bættum árangri og vellíðan skólabarna. Niðurstöður könnunar Gallups staðfesta að þau eftirsóknarverðu markmið eru að bera árangur.

Gæði umhverfis í hávegum haft

Það kemur ef til vill ekki á óvart en Seltjarnarnesbær er efst stiga meðal sveitarfélaganna þegar kemur að þjónustu í tengslum við sorphirðu. Enn fremur eru 88% íbúa eru ánægðir með gæði umhverfis í  nágrenni við heimil sitt.

Menningarlífið í blóma

Íbúar Seltjarnarness taka virkan þátt í menningarlífi bæjarins og gefa því háa einkunn. Aukin áhersla hefur verið lögð á þann málaflokk undanfarin ár með jákvæðum árangri, enda skipa menningarmálin annað sæti úttektarinnar.

Eldri borgarar una hag sínum vel

Ánægja eldri Seltirninga með þjónustu bæjarins mælist áfram há og er Seltjarnarnesbær þar í öðru sæti á landsvísu. Niðurstaðan endurspeglar festu í stjórnun þessa málaflokks en mikið kapp hefur verið lagt á að skipuleggja nærþjónustu við aldraða í samráði við þá sjálfa með það að markmiði að þeir eigi þess kost að búa sem lengst á eigin heimili. Það samræmist einnig yfirlýstri stefnu félagasamtaka eldri borgara.

Aðstaða til íþróttaiðkunar fyrsta flokks

Ánægja bæjarbúa á Seltjarnarnesi helst áfram í toppsæti þegar kemur að aðstöðu til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu, en þar lýstu 86% aðspurðra sig ánægða með aðstöðuna.

Gott samstarf, betra samfélag

Bæjarstjórn og starfsmenn bæjarfélagsins leggja sig fram um að hlusta eftir hvaða þjónusta skiptir máli fyrir bæjarbúa og hefur sú stefna skilað bæjarfélaginu fyrsta sæti þegar kemur að  spurningunni um þjónustustig bæjarins. Að baki þeirri aðferðafræði liggur sú sannfæring stjórnenda bæjarins að fyrirmyndar samstarf skili sér í betra samfélagi og hagkvæmari rekstri.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?