Fara í efni

Sé fyrir mér aukið samfélagslegt hlutverk Íþróttafélagsins Gróttu, segir Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness

Á dögunum skrifaði Seltjarnarnesbær undir nýjan styrktarsamning við Íþróttafélagið Gróttu. Í samningnum segir m.a. að meginmarkmið samningsaðila sé að tryggja öflugt og fjölbreytt íþróttastarf á Seltjarnarnesi.

Á dögunum skrifaði Seltjarnarnesbær undir nýjan styrktarsamning við Íþróttafélagið Gróttu. Í samningnum segir m.a. að meginmarkmið samningsaðila sé að tryggja öflugt og fjölbreytt íþróttastarf á Seltjarnarnesi. Grótta skal hafa það að markmiði að bjóða börnum og unglingum skipulagt íþróttastarf undir leiðsögn menntaðra og hæfra leiðbeinanda þar sem forvarnargildi íþrótta er haft að leiðarljósi og Seltjarnarnesbær mun hafa það að markmiði að efla aðstöðu og treysta rekstrar- og starfsgrundvöll félagsins með beinum fjárframlögum og samningi um rekstur íþróttamannvirkja.

Við undirritun styrktarsamnings við Gróttu

Myndin var tekin við undirritunina en þar eru Kári Garðarsson, Elín Smáradóttir, Ásgerður Halldórsdóttir, Magnús Örn Guðmundsson og Haukur Geirmundsson.

Saga Gróttu er samofin sögu Seltjarnarness frá árinu 1967 þegar félagið var stofnað. Félagið hefur undanfarin ár verið í senn hjartað og sálin í mannlífi bæjarins, veitt ungu fólki þjálfun í deildum félagsins og skapað fyrirmyndir um heilbrigt líf, samstarf og vináttu ungs fólks fram á fullorðins ár. Gróttan hefur ekki aðeins alið upp vaskar sveitir í keppni og leik, heldur hefur Grótta einnig verið vettvangur fyrir sjálfboðastarf hundruða bæjarbúa í gegnum árin. 

Á þessu ári fagnar Grótta fimmtíu ára afmæli, en á þeim áratugum sem liðnir eru frá stofnun félagsins, hefur bærinn byggt upp myndarlega aðstöðu fyrir félagið ásamt því að styðja við fjárhagslegan rekstur þess. Á næstu mánuðum verður farið í stækkun á fimleikahúsi og íþróttamiðstöð bæjarins við Suðurströnd.

Það hefur verið metnaður Gróttu að bæta alla innri og ytri umgjörð starfseminnar samhliða því að mæta auknum kröfum samfélagsins, iðkenda og síðast en ekki síst foreldra.  Hefur það án efa aukið vægi íþróttastarfsins innan Gróttu og fest hana í sessi sem einn af hornsteinum bæjarfélagsins.

Það er von okkar í bæjarstjórn Seltjarnarness að með þessum samningi muni félagið vaxa og dafna sem aldrei fyrr. Íþróttir hafa löngum verið í hávegum hafðar í rekstri og starfsemi bæjarins og þar hefur Grótta verið bæjarfélaginu afar mikilvægur hlekkur og hefur félagið borið hróður bæjarfélagsins víða.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?