Í gær, 21. desember, undirrituðu Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness og Teitur Ingi Valmundsson aðstoðarframkvæmdastjóri LNS Saga ehf samning um byggingu hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi. Framkvæmdir hefjast í byrjun næsta árs. Hjúkrunarheimilið mun rísa við Safnatröð á einum rómaðasta útsýnisstað á Nesinu.
Fjörtíu rými eru í hjúkrunarheimilinu og lögð verður áhersla á að umhverfi og aðaðbúnaður líkist hefðbundnum einkaheimilum í notalegu umhverfi. Um leið miðast hönnunin að því að mæta þörfum fólks sem hefur skerta getu til athafna. Byggingin er á einni hæð, án stiga og gott aðgengi er að henni. Bílastæði og aðstaða til útiveru eru einnig opin og afar aðgengileg. Hið nýja hjúkrunarheimili býður upp á aðstæður sem stuðla að vellíðan þeirra sem þar dvelja, jafnt heimilismanna sem starfsfólks og aðstandenda. Forsendur byggingarinnar grundvallast á stefnu og viðmiðum velferðarráðuneytisins í öldrunarmálum. Seltjarnarnesbær annast hönnun og byggingu heimilisins í samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins og Velferðarráðuneytið. Björn Guðbrandsson arkitekt frá Arkís ehf. er arkitekt hússins.
Á myndinni eru fulltrúar frá Seltjarnarnesbæ og LNS Saga ehf þau Gunnar Lúðvíksson, Guðmundur Þórðarson, Teitur Ingi Valmundsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Pétur Vilberg Guðnason, Gísli Hermannsson og Kristinn H. Guðbjartsson.