Í næstu viku hefur verið skipulögð fjölbreytt menningardagskrá í Bókasafni Seltjarnarness. Af ýmsu eru að taka og ættu allir að finna þar eitthvað hafa við sitt hæfi
Í næstu viku hefur verið skipulögð fjölbreytt menningardagskrá í Bókasafni Seltjarnarness. Af ýmsu eru að taka og ættu allir að finna þar eitthvað hafa við sitt hæfi.
Þriðjudag 1. nóvember kl. 19:30 - Ragnar Jónasson
Glæpasagnahöfundurinn og lögfræðingurinn Ragnar Jónasson verður gestur Bókasafnsins þriðjudaginn 1. nóvember kl. 19:30 en þar fjallar hann um hina umtöluðu bók sína Dimmu auk þess að kynna fyrir lesendum nýja bók sem er óbeint framhald af henni.
Miðvikudag 2. nóvember kl. 17:30 - Palli var einn í heiminum
Yngstu kynslóðinni er boðið í hina reglubundnu sögustund miðvikudaginn 2. nóvember kl. 17:30, þegar hið sígilda meistaraverk barnabókmenntanna, Palli var einn í heiminum, verður lesið og myndir úr bókinni sýndar samhliða lestrinum. Til marks um vinsældir bókarinnar má nefna að frá því hún kom fyrst út í Kaupmannahöfn árið 1942 hefur hún verið gefin út á um 40 tungumálum í milljónum eintaka.
Fimmtudag 3. nóvember kl. 17:30 - Ásgeir Ásgeirsson
Hinn þjóðkunni gítarleikari og lagasmiður Ásgeir Ásgeirsson mun ásamt trompetleikaranum Snorra Sigurðssyni flytja ljúf tóna úr amerísku jazzstandarda hefðinni ásamt eigin lagasmíð í tónleikaröðinni Tónstöfum, sem unnin er í samstarfi Bókasafnsins og Tónlistarskóla Seltjarnarness. Tónleikarnir fara fram fimmtudaginn 3. nóvember kl. 17:30 og er aðgangur ókeypis.
Til föstudags 4. nóvember Messíana Tómasdóttir
Nú stendur yfir í Gallerí Gróttu sýning á verkum fyrrum bæjarlistamannsins og borgarlistamannsins Messíönu Tómasdóttur. Sýningin ber yfirskriftina Hugform - máluð og klippt. Í texta sýningarskrár, sem sýningarstjóri sýningarinnar Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur ritaði, segir: „Messíana málar á pappír með akríllit og límir síðan útklippt form á málaða grunna. Þessi leikur með skæri minnir á málarann Henri Matisse, sem helgaði þessari tækni síðasta hluta starfsævi sinnar.“
Bókasafn Seltjarnarness er opið mánudaga - fimmtudaga 10-19 og föstudaga 10-17.