Frá og með deginum í dag 1. mars einfaldast plastflokkun til muna á Seltjarnarnesi því þá mega íbúar setja allt hreint plast saman í plastpoka að eigin vali, hnýta fyrir og henda pokanum beint út í almennu sorptunnuna. Mikilvægt er að skola burtu matarleifum, leifum af efnum úr brúsum og hvers kyns óhreinindum sem og er mælt með því að stafla umbúðunum til að umfangið verði minna í tunnunni.
Plastið verður svo flokkað frá almennu sorpi með vélrænum flokkunarbúnaði. Ekki er lengur þörf á sérmerktu pokunum sem hafa verið notaðir við plastsöfnun í tilraunaátaki SORPU og Seltjarnarnesbæjar sem stóð yfir í rúmt ár en þeir sem vilja nýta sér þá áfram mega auðvitað gera það. Hægt verður að nálgast þá poka á meðan að birgðir endast í Þjónustumiðstöðinni, á bæjarskrifstofunni, á bókasafninu og í íþróttamiðstöðinni.
Tilraunaátakið hér á Nesinu heppnaðist afar vel og er íbúum þökkuð þátttakan. Niðurstöðurnar urðu til þess að stjórn Sorpu ákvað að taka næsta skref í plastflokkuninni og önnur nágrannasveitarfélög bætast nú í hópinn. Við hvetjum Seltirninga til að vera áfram í fararbroddi og nýta sér einfaldari leið til plastflokkunar því betur má ef duga skal ... umhverfisins vegna!
Bæklingur um plastflokkunina og fyrirkomulagið á að berast til íbúa í þessari viku auk þess sem ítarlegar upplýsingar, ráð og leiðbeiningar um flokkunina og endurvinnsluna auk lista yfir algengar spurningar og svör er að finna á vef Sorpu www.sorpa.is/plastflokkun