Fara í efni

Mikil ánægja með sundlaugina okkar

Nú í byrjun vetrar lét Íþrótta- og tómstundanefnd Seltjarnarness framkvæma þjónustukönnun meðal gesta Sundlaugar Seltjarnarness
SundlaugNú í byrjun vetrar lét Íþrótta- og tómstundanefnd Seltjarnarness framkvæma þjónustukönnun meðal gesta Sundlaugar Seltjarnarness. Um var að ræða netkönnun sem var unnin af GALLUP en starfsfólk laugarinnar safnaði netföngum saman. Ríflega tvöhundruð og þrjátíu gestir svöruðu tuttugu spurningum en jafnfram gafst gestum kostur á að koma með ábendingar um hvað mætti betur fara, eða hrósa því sem vel er gert.

Niðurstöður könnunarinnar eru einkar ánægjulegar. Á heildina litið voru tæplega 96% svarenda ánægðir með Sundlaug Seltjarnarnarness.  Sama á við um viðmót starfsfólks laugarinnar því 94,5% svarenda voru ánægð með þann mikilvæga þátt. Mikil ánægja var einnig með fleiri þætti, svo sem  öryggi, aðbúnað allan og aðstöðu fyrir börn. Það er sérstakt fagnaðarefni enda kappkostað að gera laugina eftirsóknarverða fyrir barnafólk.

En alltaf má bæta eitthvað. Rúmlega 8% svarenda voru óánægð með hreinlæti (World Class meðtalið) og tæplega 19% voru óánægð með opnunartíma laugarinnar. Nokkuð margir töldu að opnunartíma mætti lengja, bæði á virkum dögum og um helgar.  Mikill meirihluti eða um níu af hvejum tíu voru sáttir við eða hlutlausir um aðgangseyri  enda verð nokkuð lægra en í Reykjavík.  Auk ofangreindra atriða komu allmargar ábendingar  um ýmis atriði, stór og smá. En mest var þó um hrós gesta.

Til gamans má nefna að um 94% svarenda sögðust fara í heita pottinn og 74% syntu í lauginni. Að lokum má geta þess 34% svarenda  sögðust  hafa farið oftar í laugina á síðustu 12 mánuðum  en tæplega 7% sögðu að þeir kæmu sjaldnar. Obbinn af þeim sem tóku þátt í könnuninni fara um þrisvar í viku í sund þannig að fastagestir voru áberandi í könnuninni.

ÍTS þakkar þeim sem tóku þátt í könnuninni  og tóku sér tíma til þess að koma á framfæri athugasemdum og hrósi til starfsfólks sundlaugarinnar. Unnið verður áfram með þær athugasemdir sem bárust.  Það er afar dýrmætt að fá ábendingar og hrós frá gestum en bænum er það mikið metnaðarmál að viðhalda ánægju gesta í lauginni okkar. Haukur Geirmunds og hans fólk eiga þakkir skilið fyrir afar góða niðurstöðu úr könnuninni.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?