Menningarhátíð Seltjarnarness fer í gang með stæl fimmtudaginn 12. október, með sýningaropnunum í Gallerí Gróttu og á Bókasafni Seltjarnarness. Hátíðin mun svo standa fram á sunnudag með margvíslegum viðburðum þar sem allir bæjarbúar ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
12.10.17 - 15.10.17MENNINGARHÁTÍÐ SELTJARNARNESS - FJÖLBREYTT DAGSKRÁ
Menningarhátíð Seltjarnarness fer í gang með stæl fimmtudaginn 12. október, með sýningaropnunum í Gallerí Gróttu og á Bókasafni Seltjarnarness. Hátíðin mun svo standa fram á sunnudag með margvíslegum viðburðum þar sem allir bæjarbúar ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Einn af hápunktum hátíðarinnar verða tónleikar Péturs Ben og Lay Low í Félagsheimilinu, laugardagskvöldið 14. október, þar sem þau koma í fyrsta sinn fram saman í sviði. Pétur og Lay Low verða með sérsniðna dagskrá sérstaklega fyrir hátíðina þar sem þau tvinna saman tónlist sína svo úr verður einstök upplifun.
Aðrir skemmtilegir viðburðir fyrir alla fjölskylduna eru meðal annars opnun á nýendurbættu aðgengi stjörnusjónaukans í Valhúsaskóla á fimmtudeginum og morgunverðarboð fyrir alla Seltirninga á Eiðistorgi á laugardagsmorgni með tónlist, andlitsmálun og blöðrum. Á laugardeginum verður nýafstöðnum breytingum í barnadeild bókasafnsins fagnað með Ævari Þór Benediktssyni og DJ flugvél og geimskip. Í Lækningaminjasafninu verður Fuglakabarett Daníels Þorsteinssonar og Hjörleifs Hjartarsonar fluttur af Söngfjelaginu undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Á sunnudeginum, síðasta degi Menningarhátíðar, verður farið í listgöngu um Nesið með listfræðingnum Aðalsteini Ingólfssyni, heiðursdagskrá um rithöfundinn Jóhönnu Kristjónsdóttur sem lést á árinu fer fram í Félagsheimilinu og lýkur hátíðinni með Improv Való og Improv Ísland um kvöldið. Verið hjartanlega velkomin á Menningarhátíð Seltjarnarness.