Nemendur úr sjöunda bekk á Seltjarnarnesi og í Garðabæ kepptu á Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar 2017 í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju fimmtudaginn 23. mars síðastliðinn.
Á lokahátíðinni fengu 10 nemendur í sjöunda bekk úr Valhúsaskóla, Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Sjálandsskóla að spreyta sig á upplestri á fyrirfram ákveðnum texta. Í ár voru skáld keppninnar Andri Snær Magnason og Steinunn Sigurðardóttir. Einnig fá nemendur að lesa ljóð að eigin vali.
Í lok hátíðar afhenti Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, öllum lesurunum bók frá Félagi íslenskra bókaútgefenda sem viðurkenningu fyrir þátttökuna. Allir þátttakendur stóðu sig vel.
Í fyrsta sæti var Sonja Lind Sigsteinsdóttir úr Hofsstaðaskóla, í öðru sæti var Helga Sigríður Kolbeins úr Álftanesskóla og í þriðja sæti var Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir úr Hofsstaðaskóla.
Talið frá vinstri: Sonja Lind Sigsteinsdóttir, Margrét Harðardóttir skólastjóri Hofsstaðaskóla, Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir, Helga Sigríður Kolbeins og Erna I. Pálsdóttir aðstoðarskólastjóri Álftanesskóla.
Fulltrúar Valhúsaskóla voru þau Harri Hreinsson og Jóhanna Hilmarsdóttir. Auk þess var Þórhildur Helga Hallgrímsdóttir valin sem varamaður. Stóðu þau sig öll með stakri prýði og voru skólanum til mikils sóma.
Myndir af Valhýsingunum: http://grunnskoli.seltjarnarnes.is/skolinn/frettir/nr/10088