Fara í efni

Ljóskastarahúsið friðlýst

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur nú samþykkt tillögu Minjastofnunar Íslands að friðlýsa Ljóskastarahúsið við Urð á Suðurnesinu á Seltjarnarnesi. Mannvirkið er einstakt á Íslandi og mikilvæg heimild um hernámstímann og umsvif breska setuliðsins hér á landi.

Samkvæmt tilkynningu og frétt frá Minjastofnun kemur fram að Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að tillögu Minjastofnunar Íslands að friðlýsa ljóskastarahús við Urð, Suðurnesi, Seltjarnarnesi. Friðlýsingin tekur til hins steinsteypta mannvirkis í heild og hlaðins sökkuls umhverfis það.20180409_124017_1523279189307_resized

Mannvirkið er einstakt á Íslandi og mikilvæg heimild um hernámstímann og umsvif breska setuliðsins hér á landi. Húsið er 26 fm. að grunnfleti, steinsteypt ofan á grjóthleðslu. Gólf, veggir og þak eru úr steinsteypu. Það var byggt utan um ljóskastara við upphaf seinni heimstyrjaldar, veturinn 1940-41. Húsið var hannað af Lloyd Benjamin, verkfræðingi breska setuliðsins. Sami höfundur teiknaði gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli, sem friðaður var af ráðherra árið 2011. Ljóskastarinn var hluti af varnarbúnaði breska hersins við innsiglinguna að Reykjavík. Ljóskastarahúsið tengdist herskálahverfi á Suðurnesi og er eina mannvirkið sem eftir er frá þeim tíma. Húsið er hið eina sinnar tegundar hér landi en vitað er um svipuð hús í Færeyjum, við Lossie í Skotlandi og í Ástralíu. Ekki hafa fundist nákvæmlega eins hús og því kann húsið við Stóruurð að hafa fágætisgildi á heimsvísu.

Ljóskastarahúsið hefur auk þess gildi sem aðgengilegur minjastaður og vinsæll áningastaður á gönguleiðinni um Suðurnes, enda eru form þess, gerð og staðsetning myndræn og fögur. Tæknileg uppbygging þess er merkileg, en löng ending steinsteypunnar ber vott um vandaða gerð og frágang í upphafi.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?