Fara í efni

Linda & Eyþór – Sögustund – Húbert Nói

Safnanótt á Seltjarnarnesi verður haldin hátíðleg í kvöld, föstudag frá kl. 19-24, en dagskrána má finna á seltjarnarnes.is/bokasafn.

Í næstu viku bjóða Bókasafn Seltjarnarness og Gallerí Grótta til menningarveislu þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Safnanótt á Seltjarnarnesi verður haldin hátíðleg í kvöld, föstudag frá kl. 19-24, en dagskrána má finna á seltjarnarnes.is/bokasafn.

Í næstu viku bjóða Bókasafn Seltjarnarness og Gallerí Grótta til menningarveislu þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Þriðjudag 9. febrúar kl. 19:30 – Bókmenntakvöld
Ljóðskáldin Eyþór Árnason og Linda Vilhjálmsdóttir verða gestir Bókmenntakvölds Bókasafnsins næstkomandi þriðjudagskvöld kl. 19:30. Bæði gáfu nýverið út ljóðabækur; Eyþór bókina Norður og Linda bókina Frelsi. Um bók Lindu segir útgefandi: „Linda er eitt besta ljóðskáld okkar og ný bók frá henni stórtíðindi. Frelsi geymir um fimm tugi beittra, pólitískra ljóða: meitlaðar og áhrifaríkar ljóðmyndir spegla samfélag og samtíma, og þvinga jafnvel lesandann til miskunnarlausrar sjálfsskoðunar. Áleitin bók sem hreyfir við hugsunum og tilfinningum.“ 
Um bók Eyþórs segir útgefandi: „Ég sæki hunang í bækur smjör í snemmsprottnar sléttur eld í ókleifa kletta og ást í koldimma hella Vín djúpt í brunna vatn í dökkgræna skóga fótspor í kvöldbláa dali og heimþrá í gáskafull stef Eyþór Árnason hefur vakið mikla athygli fyrir ljóðabækur sínar en hann hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrstu ljóðabók sína, Hundgá úr annarri sveit.

Miðvikudag 10. febrúar kl. 17:30 - Sögustund 
Vinabókin eftir Jónu Valborgu Árnadóttur og Elsu Nielsen verður lesin og rædd í Sögustund yngstu gesta Bókasafnsins. Í bókinni segir frá Sólu sem vildi óska að hún ætti vin til að tala við og gera eitthvað skemmtilegt með. Þegar Sóla kynnist hinum dularfulla Skorra hefur það ófyrirséðar afleiðingar og pabbi sér stelpuna sína í nýju ljósi.

Fimmtudag 11. febrúar kl. 17:00 - Opnun í Gallerí Gróttu
Reykjavík 1985-1990 er yfirskrift sýningar Húberts Nóa Jóhannessonar sem verður opnuð í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 11. febrúar kl. 17. Á sýningunni eru nokkur verka Húberts Nóa frá árunum 1985-1990 og hafa sum þeirra ekki verið sýnd áður opinberlega. Verkin eru af stöðum í Reykjavík sem málaðir eru eftir minni en strax á námsárum sínum var það leiðarstef listamannsins að færa umhverfið, byggingarlist og landslag inn í manneskjuna og yfirfæra það aftur út í umhverfið, hafandi staldrað við um stund í efnaferli líkamans.  

Á þeim tíma, sem verkin vísa til, kom upp á yfirborðið stefna í myndlist er nefndist  neo geo eða ný geometria, sem er m.a. kennd við listamennina Helmut Federle, John Armleder, Gerwald Rockenschaub og Franz Graf. Áhrifa stefnunnar gætti talsvert hjá ungum myndlistarmönnum sem voru að hasla sér völl á Íslandi um miðjan níunda áratuginn og margir snérust á sveif með henni einkum eftir gestakennslu Helmut Federle við MHÍ 1984.

Myndlistarmaðurinn Húbert Nói felldi þessa stefnu að sínum myndheimi þar sem borgarumhverfi og landslag er einfaldað í geometrisk form. Framsetning og viðfangsefni eru persónuleg en sjálfsprottin nálgun við listsköpun var ein meginstefna í hugmyndafræði nýja málverksins og pönksins, sem voru nánast samtíða neo geo stefnunni.  

Aðgangur er ókeypis á alla viðburðina. Allir velkomnir.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?