Nemendur Valhúsaskóla stóðu sig vel á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem fram fór þann 27. mars sl. og hreppti Agnes Sólbjört Helgadóttir, Valhúsaskóla 2. sætið í keppninni.
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ, miðvikudaginn 27. mars sl. Tólf nemendur af Seltjarnarnesi og úr Garðabæ tóku þátt í lokahátíðinni. Fyrir hönd Valhúsaskóla kepptu Agnes Sólbjört Helgadóttir og Jens Heiðar Þórðarson, en varamaður þeirra var James Eiríkur Hafliðason. Aðrir keppendur komu frá Alþjóðaskólanum, Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Sjálandsskóla.
Keppendur lásu texta úr skáldsögunni Þín eigin þjóðsaga eftir Ævar Þór Benediktsson, ljóð eftir Önnu Sigrúnu Snorradóttur og ljóð að eigin vali. Allir þátttakendur stóðu sig með prýði en úrslit keppninnar urðu þau að Inga Fanney Jóhannesdóttir, Sjálandsskóla, varð í 1. sæti, Agnes Sólbjört Helgadóttir, Valhúsaskóla, í 2. sæti og Bjarki Óttarsson, Hofsstaðaskóla, í 3. sæti. Hátíðinni lauk með því að allir sem lásu fengu bókargjöf og sigurvegarar fengu peningaverðlaun og viðurkenningarskjal frá Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn. Varamenn sem tóku fullan þátt í undirbúningnum voru einnig kallaðir upp á svið og fengu bókaverðlaun.
Skólskrifstofur Seltjarnarnesbæjar og Garðabæjar hafa undanfarin ár átt samstarf um lokahátíðina og er hún haldin þriðja hvert ár á Seltjarnarnesi.