Fara í efni

Hjúkrunarheimilið formlega vígt og fékk nafnið SELTJÖRN

Laugardaginn 2. febrúar var nýja hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi formlega vígt að viðstöddu fjölmenni og heiti þess og merki opinberað í fyrsta sinn en hjúkrunarheimilið fékk nafnið SELTJÖRN.

Á Laugardaginn 2. febrúar var nýja hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi vígt formlega og heiti hjúkrunarheimilisins, SELTJÖRN ásamt merki opinberað í fyrsta sinn. Haldin var hugmyndasamkeppni um nafn á hjúkrunarheimilið og skaraði SELTJÖRN framúr að mati dómnefndar en alls bárust 140 innsendingar með 90 ólíkum nöfnum. Fimm aðilar sendu inn vinningstillöguna eða þau Guðrún Daníelsdóttir, Jón Tryggvi Sveinsson, Ólafur Egilsson, Ragnhildur B. Guðjónsdóttir og Valgerður Anna Þórisdóttir.

Mikið fjölmenni var viðstatt vígsluathöfn hjúkrunarheimilisins í köldu en dásamlega fallegu veðri. Boðið var upp á hátíðardagskrá auk þess sem öllum gestum gafst tækifæri til að skoða þetta glæsilega húsnæði og njóta veitinga. Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Svandís Svavarsdóttir héldu hátíðarávörp og klipptu á borða. Björn Guðbrandsson arkitekt hússins sagði frá hönnun hússins og Jón Ingi fulltrúi Munck Íslandi sem önnuðust byggingu hússins afhenti Ásgerði bæjarstjóra lyklana. Ásgerður afhenti lyklana þá til Svandísar ráðherra heilbrigðismála sem afhenti þá að lokum til Kristjáns Sigurðssonar forstjóra Vigdísarholts sem er rekstraraðili hjúkrunarheimilisins. Í ávarpi sínu upplýsti Kristján um að ráðgert væri að hefja rekstur hjúkrunarheimilisins í kringum 20. mars nk. að því gefnu að mönnun gangi vel.

Hjúkrunarheimilið Seltjörn

 

Ásgerður Halldórsdóttir og Svandís Svavarsdóttir

Svandís Svavarsdóttir og Kristján Sigurðsson

Hjúkrunarheimilið Seltjörn - merki

Fáni með nýju merki hússins var dreginn að húni en það var Elsa Nielsen grafískur hönnuður sem hannaði merki SELTJARNAR.

Nánar um nafnið SELTJÖRN og rökstuðningur dómnefndar:

SELTJÖRN er fallegt, jákvætt og hlýlegt nafn með skýra tilvísun í Seltjarnarnes og staðsetningu heimilisins. Seltjörnin sjálf sést afar vel frá hjúkrunarheimilinu.

SELTJÖRN hefur ætíð haft mikla þýðingu í sögu og náttúru Seltjarnarness og er getið í sagnfræðilegum heimildum mörg hundruð ár aftur í tímann. Vestursvæðin og gömlu lögbýlin voru kennd við Seltjörn sbr. NES við Seltjörn.

SELTJÖRN er örnefni á Seltjarnarnesi sem hefur verið lítið notað ólíkt mörgum öðrum örnefnum hér í bæjarfélaginu. Hér hefur þó verið starfrækt kvenfélagið Seltjörn í hartnær 50 ár og vinna þær að góðgerðarmálum. Það er því ekki leiðum að líkjast!

Orðið SELTJÖRN er sjónrænt fallegt, beygist vel, er þjált í notkun og gefur góða möguleika varðandi hönnun og framsetningu.

Nánar um merkið - í lýsingu á því segir:

Grafískt merki sem byggist á vatnsgárum og sólsetri. Vatnsgárurnar eru tilvísun í tjörn sem er partur af heiti hjúkrunarheimilisins og einnig ákveðin tenging við lógó Seltjarnarnesbæjar.

Sólin táknar yl, birtu og uppbyggingu. Sólin er forsenda lífs, hefur yfirsýn og vakir yfir fólkinu. Hálf sól merkir sólsetur og er skírskotun í fallega útsýnið sem íbúar Seltjarnar njóta góðs af. Seltjörn er einmitt staðurinn sem maður vill eyða ævikvöldinu á.

Merkið er í fjórum litum sem eru litir jafnmargra álma hússins og stendur vel með þéttu letri. Stílheinn einfaldleiki og leturgerðin er sígild og tímalaus. Merkið er bjart og glaðlegt og gefur tilfinningu fyrir hlýjum, umvefjandi faðmi sem verndar einstaklinginn.Hjúkrunarheimilið Seltjörn

Hjúkrunarheimilið Seltjörn

 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?