Fara í efni

Glæsileg dagskrá á 17. júní – Svala, Daði og Úlfur Úlfur

Sautjánda júní hátíðarhöldin í Bakkagarði á Seltjarnarnesi hafa aldrei fyrr skartað jafn stórum nöfnum í tónlistarsenunni og sviðið hefur aldrei verið stærra. Leiktækjum hefur verið fjölgað og öll endurnýjuð.

17. júní 2017Sautjánda júní hátíðarhöldin í Bakkagarði á Seltjarnarnesi hafa aldrei fyrr skartað jafn stórum nöfnum í tónlistarsenunni og sviðið hefur aldrei verið stærra. Leiktækjum hefur verið fjölgað og öll endurnýjuð. Frítt er í öll tæki auk þess sem frítt er upp í vatnabolta, loftbolta og hestateymingar. Skrúðgangan leggur af stað frá Leikskólanum við Suðurströnd kl. 13. Bæjarbúar munu ekki fara varhluta af hátíðleikanum en bærinn verður skreyttur hátt og lágt og hátíðardagskráin sniðin að íbúum á öllum aldri.

Bátasiglingar og guðsþjónusta að morgni dags

Siglingafélagið Sigurfari og Björgunarsveitin Ársæll bjóða börnum í fylgd með fullorðnum upp á bátsferðir frá smábátahöfninni við Bakkavör frá kl. 10-12. Siglingar eru þó háðar veðri og vindum og börn verða að vera í fygld með fullorðnum. Hátíðarguðsþjónusta hefst í Seltjarnarneskirkju kl. 11. Sr. Bjarni Þór Bjarnason þjónar fyrir altari, organisti er Friðrik Vignir Stefánsson og ræðumaður er Svana Helen Björnsdóttir. Félagar úr Kammerkór Seltjarnarneskirkju leiða almennan safnasöng og Rótarýfélagar á Nesinu bjóða upp á þjóðhátíðarkaffi að athöfn lokinni.

 

Skrúðganga með trúðum og stultufólki

Klukkan 13:00 hefst skrúðganga frá Leikskóla Seltjarnarness. Gengið verður eftir Suðurströndinni að Bakkagarði í fylgd Lúðrasveitar Tónlistarskóla Seltjarnarness undir stjórn Kára H. Einarssonar. Trúðar og stultufólk slást í hópinn. Fánaberar eru úr röðum ungliða úr Björgunarsveitinni Ársæli.

Margir af fremstu skemmtikröftum þóðarinnar

Aðalhátíðarhöldin hefjast í Bakkagarði kl. 13:15 og fara fram á stærra sviði en nokkru sinni fyrr. Hinn óviðjafnanlegi Lalli töframaður er aðalkynnir hátíðarinnar og leikur listir sínar á milli atriða. Hátíðarræðu flytur formaður menningarnefndar, Sjöfn Þórðardóttir, en fjallkona Seltirninga mun einnig stíga á svið og flytja ávarp.


Svala Björgvins og Daði FreyrSvala, Daði og Gagnamagnið og Úlfur Úlfur í Bakkagarði

Rjómi skemmtikrafta á Íslandi stígur á svið í Bakkagarði. Má þar nefna ævintýrapersónurnar Dóru og Númenór úr Fjarskalandi, sem Snæfríður Ingvarsdóttir og Hallgrímur Ólafsson leika. Daði og Gagnamagnið hefur heldur betur slegið í geng eftir framgönguna í söngvakeppni sjónvarpsins en bandið hefur ekki oft sést á sviði síðan. Svala Björgvins hefur sýnt og sannað að hún er ein af okkar allra bestu söngkonum og víst að allir taka undir þegar hún flytur sitt vinsæla lag Paper. Rapparinn ómótstæðilegi Úlfur Úlfur á sæg aðdáenda sem ættu ekki á láta sig vanta í Bakkagarð, en hann slær botninn í dagskrá hátíðardagsins.

 

Frítt í vatnabolta, öll stóru leiktækin og í hestateymingar

Bakkagarður hefur aldrei skartað eins mörgum leiktækjum og nú en frítt er í öll tæki á svæðinu eins og endranær. Í boði eru hinir vinsælu vatnaboltar, hægt verður að veltast um í loftboltum og fara á milli þriggja glæsilegra hoppukastala. Þá verður börnum boðið í ókeypis hestateymingar og andlitsmálun allan daginn.


Veitingar í Bakkagarði og Félagsheimili Seltjarnarness

Sölutjöld með alls kyns góðgæti verða sett upp í Bakkagarði. Auk þess verður opið í Félagsheimilinu þar sem seldar verða rjúkandi vöfflur og kaffi frá kl. 15.

Takmörkun á umferð

Á meðan á hátíðarhöldunum stendur verður hluti Suðurstrandar lokaður allri bílaumferð nema strætó og eru gestir vinsamlega beðnir um að virða lokunina. Bent er á bílastæði við Eiðistorg áður en skrúðgangan hefst, en við leikskóla og íþróttamiðstöð eftir að hún er lögð af stað.

Eigum góðan dag saman á Seltjarnarnesi,

Dagskrá 17. júní 2017

17. júní 2017


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?