Fara í efni

Gallerí Grótta – Bókmenntakvöld – Sögustund - Sýningaropnun

Mikil og fjölbreytt menningardagskrá er framundan hjá Bókasafni Seltjarnarness næstu dagana. Verið hjartanlega velkomin
Mikil og fjölbreytt menningardagskrá er framundan hjá Bókasafni Seltjarnarness næstu dagana. Verið hjartanlega velkomin.

Hönnun Sturlu Más JónssonarPrestar & Frímínútur - Sýningalok í Gallerí Gróttu föstudag 1. apríl
Nú fer hver að verða síðastur að líta augum hina einstöku hönnun Sturlu Más Jónssonar og Þórunnar Árnadóttur, en sýningum þeirra í Gallerí Gróttu lýkur föstudaginn 1. apríl kl. 17. Um er að ræða tvö aðskilin sýningarverkefni undir yfirskriftunum Prestar og Frímínútur. Sýningarnar voru á dagskrá Hönnunarmars.

Þórunn Valdimarsdóttir á Bókmenntakvöldi – Þriðjudag 5. apríl kl. 19:30
Þórunn ValdimarsdóttirGestur bókmenntakvöldsins í Bókasafni Seltjarnarness næstkomandi þriðjudag er rithöfundurinn  Þórunn Jarla Valdimarsdóttir. Þar ræðir hún bók sína Stúlka með höfuð þar sem segir frá uppvexti höfundar í Reykjavík hippaáranna, frjálsu stúdentalífi í Lundi og Mexíkó, kommúnum, ástmönnum og litríkum samferðamönnum. Frásögn Þórunnar í bókinni þykir opinská en um leið er hún ofin trega og hamingju og djúpum söknuði. Stúlka með höfuð er sjálfstætt framhald af Stúlku með fingur og Stúlku með maga, þar sem Þórunn notaði heimildir og skáldlega túlkun til að segja sögu móður sinnar og formæðra. Báðar bækurnar hlutu mikið lof gagnrýnenda og Stúlka með maga fékk Fjöruverðlaunin árið 2014.

Karíus og Baktus í Sögustund – Miðvikudag 6. apríl kl. 17:30
Bókin um grallaraspóana þá Karíus og Baktus verður lesin og sýndar úr henni myndir í Sögustundinni næstkomandi miðvikudag kl. 17:30. Sem betur fer kynnast færri og færri börn þeim félögum af eigin raun, en í tilefni stundarinnar eru börnin hvött til að mæta í búningum eða með eitthvað sem minnir á þá félaga. Bókasafnið býður öllum upp á hollustunammi af þessu tilefni.

Myndverk Daða GuðbjönrssonarDaði Guðbjörnsson í Gallerí Gróttu – Fimmtudag 7. apríl kl. 17
Listmálarinn Daði Guðbjörnsson (1954) hefur þegar skipað sér á bekk með athyglisverðustu myndlistamönnum sinnar kynslóðar. Hann hefur farið ótroðnar slóðir í listsköpun sinni og skapað sér sérstæðan og persónulegan stíl þar sem hugmyndir, tákn og tilvitanir eru honum óþrjótandi viðfangsefni. Á sýningunni hans, sem opnuð verður í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 7. apríl kl. 17, kannar Daði nýjar lendur málaralistarinnar þar sem hann vinnur með kunnuleg tákn úr verkum sínum beint á ljósmyndir. Sýningin nefnist Ferð andans í frumskógi efnisins en þar skoðar listamaðurinn samhengið á milli lífsins og ferðalags sem bæði fela í sér að ná áfangastað sem oft er ekki fyrirsjáanlegur. Eftir nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur og Myndlista- og handíðaskóla Íslands nam Daði við Rijksakademi van Beldende Kunsten í Amsterdam til ársins 1984. Hann hefur haldið fjölda samsýninga og einkasýninga, oftast á Íslandi en einnig erlendis. Eftir hann liggja bókverk og bókaskreytingar og stærstu listasöfn þjóðarinnar eiga verk eftir hann. Árið 1993 gaf Listasafn Reykjavíkur út veglega sýningaskrá um listamanninn.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?